Óraunhæft að vextir lækki í apríl

Reutersfréttastofan hefur eftir Ingimundi Friðrikssyni, seðlabankastjóra, að í ljósi aðstæðna á fjármálamarkaði nú sé óraunhæft að ætlast til að Seðlabankinn hefji lækkun stýrivaxta í apríl eins og sumir hafi spáð. Ingimundur vildi hins vegar ekki tjá sig um, hvort bankinn væri að íhuga aðrar aðgerðir til að verja gengi krónunnar.

Reuters segir, að sumir hagfræðingar telji, að bankinn verði að grípa til einhverra aðgerða eftir að gengi íslensku krónunnar lækkaði um nærri 7% í dag. Er gengislækkunin einkum rakin til sölunnar á bandaríska fjárfestingarbankanum Bear Stearns í gærkvöldi en í kjölfar hennar varð töluvert fall á öllum helstu hlutabréfavísitölum heims.

Ingimundur segir, að nú séu óvissutímar allstaðar og bankinn fylgist með stöðu mála. Hann sagði hins vegar að bankinn væri að undirbúa næsta vaxtaákvörðunarfund. 

Reuters hefur eftir fjármálasérfræðingi, að ástæðan fyrir því að skuldabréf íslenska ríkisins og bankanna séu talin afar áhættusöm séu hinar gríðarlegu erlendu skuldir Íslands. Svonefnt skuldatryggingaálag íslensku bankanna hefur hækkað jafnt og þétt á undanförnum vikum og mánuðum.

Rafaella Tenconic, hagfræðingur hjá bankanum Dresdner Kleinwort Benson í Lundúnum, segir, að tölur frá síðasta ári sýni, að 23% af vergri landsframleiðslu Íslands hafi farið í að greiða vexti og kostnað vegna lána, sem íslenska hagkerfið í heild hefur tekið.

Reuters segir að þessar tölur séu nokkuð skekktar vegna þess að íslenska hagkerfið sé lítið og íslensku bankarnir, sem hafi tekið stærstan hluta þessara lána, virðist afar stórir í samanburði við hagkerfið. „Þetta virðist vera afar há tala - og hún er ástæða þess, að Ísland er almennt séð tengt mikilli áhættu," segir Tenconic.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK