Bílar hafa hækkað um 10-15% frá áramótum

Bílaumboðin vonast til að gengislækkunin gangi til baka.
Bílaumboðin vonast til að gengislækkunin gangi til baka. mbl.is/RAX

Bílaumboðin segjast ætla að halda að sér höndum í kjölfar gengislækkunarinnar í gær og sjá til með frekari verðhækkanir fram yfir páska. Vonast menn til að geta haldið aftur af frekari verðhækkunum en nýir bílar hafa hækkað um 10 til 15% frá áramótum.

Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri Brimborgar, sagði í samtali við mbl.is, að verðhækkanir hjá þeim hefðu komið í tveimur þrepum frá áramótum og síðast í síðustu viku hafi nýir bílar hækkað á bilinu 5-7 % en tók fram að það hafi í raun einungis verið helmingshækkun miðað við það sem bílverð hefði þurft að hækka.

„Gengisbreytingin hefur bein áhrif á innkaupsverðið sem er mjög hátt hlutfall af heildarbílverðinu," sagði Egill en bætti við að í bílasölubransanum væri ákveðin tregða til verðhækkana. „Menn eru að vonast til að eitthvað af þessum verðhækkunum gangi til baka," sagði Egill sem sagðist vera frekar bjartsýnn á að gengisbreytingin í gær muni ganga til baka.

„Við ætlum að sjá til framyfir páska, sjáum hvort þetta gengur eitthvað til baka í dag eða á morgun og svo metum við stöðuna yfir páskana. Menn fara varlega í hækkanir," sagði Egill.

Egill sagði að bílar væru að mörgu leyti óvenjuleg vara því þegar verð á nýjum bílum hækkar þá hækka einnig notaðir bílar í verði og flestir eiga eldri bíl til að setja upp í þegar keyptur er nýr bíll úr kassanum.

Jón Óskar Halldórsson sölustjóri hjá Toyota-umboðinu sagði að nýir bílar hefðu hækkað um 6,5% hjá þeim frá áramótum og að salan hefði gengið ágætlega, janúar hafi verið mjög stór sölumánuður og að menn reiknuðu hvort eð er með að salan myndi dragast eitthvað saman næstu mánuðir á eftir.

„Salan hefur gengið ágætlega en það er alveg ljóst að þegar að gengismálin eru eins og þau eru núna verður það til þess að menn haldi frekar að sér höndum en menn eru enn að kaupa bíla," sagði Jón Óskar.

Hann telur líklegt að verð muni hækka hjá Toyota eftir páska ef evran helst jafn há og raun ber vitni. „Þetta veltur allt á því sem gerist á næstu dögum," sagði Jón Óskar. Hann bætti því við að salan væri minni en umboðið hafi áætlað út frá fyrri forsendum, „en við við erum samt mjög sáttir og höfum alls ekki orðið fyrir neinum vonbrigðum með sölu þegar maður horfir á heildarmyndina."

Birgir Sigurðsson, fjármálastjóri hjá Heklu, sagði að frá áramótum hefðu nýir bílar hækkað um 12% en að þær hækkanir væru ekki í takti við það sem fall krónunnar hefur verið. „Við höfum ekki náð helmingnum af því inn í verðlagið og treystum okkur ekki til að setja það svo hratt inn í það, þannig að við erum að taka á okkur stóran hluta af þessu, " sagði Birgir í samtali við mbl.is.

Birgir sagði að þessi markaður þyldi ekki stórar breytingar á skömmum tíma.

Líkt og hjá öðrum bílaumboðum sagði Birgir að á þeim bæ myndu menn fylgjast grannt með þróun gengisins á næstu dögum og vonast hann til að þetta gangi eitthvað til baka og að ró komist á markaðinn.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK