Stýrivaxtaákvörðun skiljanleg

Forstjórar stærstu banka landsins eru sammála um að aðgerðir Seðlabanka Íslands um að hækka stýrivexti í 15% séu skiljanlegar miðað við núverandi efnahagsástand. Forstjóri Landsbankans er ánægður með ákvörðunina. Þá segir Forstjóri Glitnis ákvörðunina ekki hafa komið á óvart öfugt við forstjóra Kaupþings á Íslandi.

Jákvætt fyrir markaðinn

„Ég er ánægður með þær breytingar sem Seðlabankinn er að gera, horft á
heildarmyndina. Ég lít á þetta sem heildarpakka í aðgerðum og það segir mér að  bankinn er að fylgjast með því sem er að gerast á mörkuðum og eru greinilega með augun á boltanum eins og sagt er á fótboltamáli. Ég tel þetta jákvætt fyrir markaðinn,“ segir Sigurjón Þ. Árnason, forstjóri Landsbankans. Hann leggur áherslu á að  horfa verði á aðgerðirnar í heild sinni þótt vissulega sé hægt að hafa  mismunandi skoðanir á einstaka liðum.

Aðspurður hvort hann hefði viljað sjá Seðlabankann ganga enn lengra
segir Sigurjón þetta vera ágætis aðgerð í bili. „Það er mjög gott að
bankinn sé að fylgjast með, það er þeirra hlutverk,“ segir hann.

Seðlabankanum alvara með að  halda krónunni sterkri

Lárus Welding, forstjóri Glitnis, segir stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans  ekki koma á óvart  í ljósi breyttra aðstæðna á markaði og veikingu krónunnar á undanförnum dögum. „Horfur um verðbólgu hafa breyst og eru nú verulega yfir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans. Það er því eðlilegt að Seðlabankinn bregðist nú við og hækki stýrivexti í 15%,“ segir Lárus.

Aðspurður hvort honum þyki hækkunin hafa verið hæfileg, of lág eða of há og hvort hann eigi von á frekari hækkunum sagði hann: „Seðlabankinn sýnir með þessari hækkun að honum er alvara með halda krónunni sterkri og þar með að slá á verðbólguna. Hvað síðari hækkanir kann að verða mun tíminn og þróun á markaði leiða í ljós og erfitt að segja fyrir um á þessari stundu.“

Hliðaraðgerðir jákvæðar 

„Hækkun stýrivaxta kom nokkuð á óvart en hún er skiljanleg í ljósri yfirlýstrar stefnu Seðlabankans og til komin vegna mjög skarprar veikingar á íslensku krónunni undanfarna daga. Það er ljóst að mikil viðvarandi veiking hefur neikvæð áhrif á verðbólguhorfur.  Viðvarandi háir vextir til mjög langs tíma eru hins vegar ekki æskilegir,“ segir Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi.

Hann segir að hliðaraðgerðir þær sem Seðlabankinn tilkynnti í morgun samhliða vaxtahækkun séu að jákvæðar að mati Kaupþings. „Að færa reglur SÍ um bindiskyldu til samræmis við reglur Evrópska seðlabankans er til þess fallið að skerða ekki samkeppnisstöðu innlendra fjármálafyrirtækja gagnvart erlendum. Einnig eykur þetta eitthvað laust fé íslenskra fjármálastofnana.“


„Ljóst er að dýpri markaður með ríkistryggð stutt skuldabréf eru af hinu góða. Innlend fjármálafyrirtæki hafa kallað eftir því um nokkurt skeið að íslenska ríkið stuðli að aukinni fjölbreytni með þá fjárfestingakosti. Viðtökur erlendra aðila sem eiga viðskipti með krónur eiga þó eftir að koma fram,“ segir hann ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK