Glitnir spáir 7% lækkun fasteignaverðs

mbl.is

Greining Glitnis spáir 7% lækkun á fasteignaverði í ár og er það í samræmi við fyrri spár Glitnis. Greining Glitnis telur þrátt fyrir þetta þó ekki að aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu bitlausar,  þvert á móti telur Greining Glitnis  að þær muni varna frekari kólnun á íbúðamarkaði en nú þegar er í pípunum og flýta fyrir bata íbúðamarkaðarins þegar ytri aðstæður breytast til betri vegar.

„Aðgerðir ríkisstjórnarinnar koma fyrst og fremst til móts við þann vanda sem lýtur að lausafjárþurrð á íbúðalánamarkaði. Lausafjárkrísan er þó ekki eini mótvindurinn sem íbúðamarkaðurinn stendur frammi fyrir um þessar mundir.

Ekki má gleyma þeim áhrifum sem aukið atvinnuleysi, minnkandi kaupmáttur og aukin svartsýni neytenda hefur. Þá spilar mikið framboð íbúðahúsnæðis einnig stórt hlutverk í þeirri þróun sem framundan er og eykur þrýsting til verðlækkunar.

Loks spilar manntalsfræðin stórt hlutverk en gera má ráð fyrir að hægja muni á fólksfjölgun í kjölfar þess sem atvinnuleysi mun aukast og erlendir starfsmenn hverfa í auknum mæli af landi brott samhliða því sem eftirspurn dregst saman á vinnumarkaði. Jafnvel má búast við fólksfækkun. Af þessum sökum geta aðgerðir ríkisstjórnarinnar einar og sér ekki snúið við þeirri þróun sem framundan er á íbúðamarkaði," samkvæmt spá Greiningar Glitnis.

Segir í spá bankans að enn sé margt óljóst varðandi aðgerðir stjórnvalda á fasteignamarkaði og því erfitt að meta áhrif aðgerðanna til lengri tíma litið. „Enn á til að mynda eftir að útfæra hvernig staðið verður að stofnun nýrra lánaflokka sem ætlað er að fjármagna íbúðalán bankanna og því erfitt að meta áhrif þeirra á fjármagnskostnað og þar með á lánakjör bankanna til neytenda.

Þá er enn á huldu hvernig aðgerðirnar nú koma heim og saman við þær breytingar sem framundan eru á Íbúðalánasjóði vegna athugasemda ESA. Loks koma aðgerðirnar nú á þeim tíma sem rólegastur er á íbúðamarkaði og því má búast við því að áhrif aðgerðanna komi ekki fram fyrr en að loknu sumri.

Umgjörð fasteignaviðskipta tekur miklum breytingum í sumar en auk aðgerðanna falla stimpilgjöld vegna kaupa fyrstu íbúðar niður þann 1. júlí næstkomandi. Þá ber einnig að nefna að útlánavextir Íbúðalánasjóðs voru lækkaðir um 0,15 prósentustig í kjölfar útboðs sjóðsins í síðustu viku," samkvæmt spá Greiningar Glitnis um þróun fasteignaverðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK