Íslandsálagið staðreynd

Ingólfur Bender
Ingólfur Bender

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis, segir í morgunkorni Glitnis að sérstakt Íslandsálag á fjármögnunarkjör íslensku bankanna sé staðreynd og sýnilegt í samanburði á skuldatryggingaálagi íslensku bankanna og sambærilegra banka erlendis. Álagið mótist öðru fremur af skoðun alþjóðamarkaða á stöðu hagkerfisins og hversu vel það sé í stakk búið til að styðja við starfsemi fjölþjóðlegra banka.

"Annars vegar mótast álagið af þeirri skammtímasveiflu sem hagkerfið er að ganga í gegnum og hins vegar hvernig hagkerfið er upp byggt og þá sérstaklega hversu smátt kerfið er í samanburði við stærð bankanna. Álagið er misjafnlega sýnilegt eftir því hversu áhættufælni er mikil á erlendum mörkuðum," segir í morgunkorni Glitnis.

Ingólfur segir að þó talsverður árangur geti náðst við að bankarnir, ríkið og Seðlabanki leggist á eitt við að bæta ástandið muni Íslandsálagið án efa ekki hverfa að fullu nema með kerfisbreytingu. Styrking gjaldeyrisforða sé góð viðleitni til að efla Seðlabankann sem trúverðugan lánveitanda til þrautavara en er ekki langvarandi lausn fyrir hagkerfi sem vill bjóða fjölþjóðlegum bönkum samkeppnishæft starfsumhverfi. Á meðan myntkerfið sé jafn lítið og raun ber vitni muni því fylgja kerfisáhætta sem kemur niður á alþjóðlegri samkeppnishæfni banka sem hefðu höfuðstöðvar á Íslandi.

"Leiðirnar til að losa fjármálakerfið við Íslandsálagið til langs tíma eru líklega helst tvær: Annars vegar er hægt að stækka myntkerfið, þ.e. að gerast þátttakandi í stærra myntsvæði sem skapaði bönkunum trúverðugan bakhjarl. Evran er þar líklega besti kosturinn m.a. vegna vægi þeirrar myntar í utanríkisviðskiptum,  þó að sú leið sé seinfarin. Hin leiðin er uppgjöf við að byggja upp alþjóðlega bankastarfsemi hér á landi og að bankarnir finni sér þá annan bakhjarl en Seðlabanka Íslands með því að flytja höfuðstöðvar sínar af landi brott," skrifar Ingólfur Bender.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK