4,4 milljarða króna hagnaður Icelandair

Hagnaður Icelandair Group eftir skatta var 4,4 milljarðar króna á þriðja fjórðungi ársins en var 2,1 milljarður króna á sama tíma í fyrra. Heildarvelta félagsins var 41,5 milljarðar króna og jókst um 107% frá sama tíma í fyrra.

„Við erum sátt við reksturinn á þriðja ársfjórðungi sérstaklega í ljósi erfiðra ytri aðstæðna. Niðurstaðan sýnir styrk og sveigjanleika samstæðunnar og getu til að bregðast hratt við breytingum. Afkoman á fyrstu 9 mánuðum ársins er betri en á sama tíma 2007, ekki síst þegar tekið er tillit til söluhagnaðar flugvéla sem nam 1,2 milljörðum króna 2007, en er ekki til staðar nú," segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri félagsins, m.a. í tilkynningu.

Þar kemur fram,  að aðstæður á fjármálamörkuðum hafi versnað verulega í október, ekki síst á Íslandi. Birgjar hafi stytt greiðslufrest, erlendar fjármálastofnanir vilji minnka íslenska áhættu og íslenskur fjármálamarkaður verið nánast óstarfhæfur. Þrátt fyrir þetta hafi samstæðan staðið við allar sínar skuldbindingar. Í lok janúar 2009 er  félagið með víxla á gjalddaga að fjárhæð 2,5 milljarða króna. Unnið er að endurfjármögnun víxlanna í samstarfi við lánardrottna félagsins.

„Sú staða sem upp er komin í íslensku efnahags- og rekstrarumhverfi, samhliða lausafjár- og fjármögnunarkreppu í heiminum, hefur breytt rekstrarumhverfi samstæðunnar verulega. Óvissan er mikil og mun væntanlega hafa neikvæð áhrif á uppgjör fjórða ársfjórðungs og rekstur ársins 2009. Á þessum tímapunkti er ekki hægt að segja til um hversu mikil áhrifin verða en styrkur samstæðunnar er sveigjanleiki og áhættudreifing sem opnar tækifæri á tímum sem þessum. Við erum sannfærð um að þær aðgerðir sem gripið var til fyrr á árinu og þær hagræðingaraðgerðir sem unnið er að muni gera okkur kleift að sigrast á þeim erfiðleikum sem blasa við í viðskiptaumhverfinu," segir Björgólfur.

Hagnaður félagsins fyrir afskriftir og fjármagnskostnað var  6,2 milljarðar króna en 3,7 milljarðar króna á sama tíma í fyrra. Handbært fé í lok ársfjórðungsins var 7,4 milljarðar króna, en var 3, 8 milljarðar á sama tíma í fyrra.

Á fyrstu níu mánuðum ársins var heildarvelta Icelandair Group 84,4 milljarðar króna og jókst um 75% frá sama tíma í fyrra. Hagnaður eftir skatta var 3,1 milljarður króna, en var 1 milljarður króna á
sama tíma í fyrra.

Eignir voru 101,5 milljarðar króna í lok september 2008 samanborið  við 66,8 milljarða í lok árs 2007. Eiginfjárhlutfall var 33,1% í lok þriðja ársfjórðungs 2008 en var 37,5% í lok árs 2007.  Handbært fé frá rekstri var 9,3 milljarðar króna en var 3,9 milljarðar króna á
sama tíma í fyrra.

Tilkynning Icelandair Group

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK