Eðlilegt miðað við höftin

Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningar Kaupþings segir styrkingu krónunnar beina afleiðingu af höftunum, en krónan styrktist um 11,5% í dag og hefur styrkst um tæp 20% frá því í gærmorgun. Í dag endaði gengisvísitala krónunnar í 204 stigum. Bandaríkjadollari kostar núna 121 kr. og evra 153,32 kr. Ásgeir segir óvíst hvað gerist þegar krónunni verður fleytt án hafta. „Nýjar reglur Seðlabankans hafa einangrað vöruskipti við útlönd, það er í rauninni búið að loka á fjármagnsflutninga í dag sem þýðir að vöru- og þjónustuviðskipti eru eina gjaldeyrisflæðið á markaðnum,“ segir Ásgeir.

Getum farið að styrkja forðann 
„Það er traustvekjandi ef forðinn fer að safnast upp aftur, enda fjármagnaði Seðlabankinn stóran hluta innflutnings til landsins undanfarna tvo mánuði. Ef við söfnum afgangi þá getum við farið að styrkja gjaldeyrisforðann með náttúrulegum hætti. Þetta er því tiltölulega jákvætt,“ segir Ásgeir. Hann segir að slaka verði á fjármagnshöftunum fljótlega. „Við getum ekki haft landið lokað.“ Ásgeir hefur haft ákveðnar efasemdir um að höft séu rétta lausnin en vonast eftir því að næstu skref verði hagstæð.

Þess ber að geta að vöruskiptaafgangur í október var 11 milljarðar og sérfræðingur sem rætt var við segir að búast megi við 14 milljarða afgangi í nóvember.

Flæði á gjaldeyrismarkaði er eðlilegt, miðað við það að fjármagnsflutningar séu heftir, samkvæmt upplýsingum frá gjaldeyrisborði Glitnis. Samkvæmt upplýsingum frá gjaldeyrisborði er þessi styrking bein afleiðing af gjaldeyrishöftunum. Sérfræðingur hjá Glitni segir að þar á bæ sé búist við að krónan haldi áfram að styrkjast eftir helgi og eitthvað fram í næstu viku.

„Margir óttast að styrking krónunnar nú sé tímabundin. Það eru margir hræddir við að þegar höftin fari lækki krónan aftur. En við skulum bíða og sjá hvort það takist að endurheimta traust á kerfið í tæka tíð,“ segir sérfræðingur hjá Glitni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK