Þorgerður Katrín: Verðum að hefja aðildarviðræður við ESB

Frá Viðskiptaþingi í dag.
Frá Viðskiptaþingi í dag. mbl.is/RAX

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir nauðsynlegt að nýjum formanni Sjálfstæðisflokksins verði veitt umboð á landsfundi til að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þetta kom fram í máli Þorgerðar í pallborðsumræðum um áherslur stjórnmálaflokkanna á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs sem nú stendur yfir á Hilton Nordica.

Í pallborði voru auk Þorgerðar, Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar.

„Eins og ástandið er núna stefnir í það að ríkið mun koma inn á fleiri sviðum en í eðlilegu ástandi,“ sagði Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins  „Reynslan kennir okkur að við þurfum að fara hægt í að einkavæða bankana aftur,“ sagði Guðjón.

 „Við munum ekki fara í gegnum niðursveifluna án þess að skera niður. Þannig er framtíðin. Við munum bæði horfa til skattahækkana og niðurskurðar, því miður,“ sagði Guðjón. Hann sagði að atvinnulífið væri brennt vegna bankahrunsins.

Möguleiki á skattahækkunum ekki til staðar
Sigmundur Davíð sagði að möguleikinn á skattahækkunum væri ekki til staðar. Taka þyrfti á vandanum með róttækum niðurskurði. „Við þurfum að byrja á því að gera okkur grein fyrir því að mikið af þessu (eignum bankanna) er tapað,“ sagði Sigmundur. Hann sagði að svo virtist sem það mætti ekki ræða af hreinskilni hvernig ástandið væri því það gæti gert ástandið verra. „Við þurfum að eiga frumkvæði að mjög róttækum aðgerðum til þess að koma hagkerfinu í gang,“ sagði Sigmundur. Hann sagði skort á frumkvæði einkennandi. Engum hefði dottið í hug að hafa samband við Evu Joly fyrr en hún birtist í viðtali í sjónvarpinu.

Steingrímur J. sagði að ýmsar björgunaraðgerðir væru í gangi. Flestir vildu að þetta væri ekki svona erfitt, en því miður væri ástandið svona. „Við þurfum að horfa til endurskipulagningar í bankakerfinu og styðja við atvinnuvegina og verðmætasköpun. [...] Ég er bjartsýnn til lengri tíma litið,“ sagði Steingrímur og vísaði til ungs aldurs þjóðarinnar og að menntunarstig væri hátt. Hann sagði að trúverðugleiki skipti öllu máli. „Við höfum orðið fyrir gríðarlegu áfalli hvað varðar trúverðugleika og það bíður okkur mikið verkefni að endurreisa hann,“ sagði Steingrímur.

„Ríkisfyrirtæki eiga að vera ríkisfyrirtæki og líta á sig sem samfélagsleg fyrirbæri sem hafa þjónustuskyldu við fólkið í landinu,“ sagði Steingrímur. Hann sagði að fara þyrfti blandaða leið skattahækkana og niðurskurðar í endurreisninni. Fyrst um sinn yrði gjaldmiðillinn íslenska krónan.

Steingrímur nefndi einnig hátekjuskatta. „Ég gef ekkert fyrir það kjaftæði að fólk sem er með tugi eða hundruð milljóna króna á mánuði í laun, borgi ekki hærri skatta í samræmi við það,“ sagði Steingrímur. 

Steingrímur sagði að aðild að Evrópusambandinu væri ekki lausnin. Hann sagði að við værum að fjarlægjast það að geta uppfyllt Maastricht-skilyrði aðildar.

Aðild að ESB skilyrði ríkisstjórnarsamstarfs
„Maður upplifir mikla tortryggni. Lýðræðisins vegna þurfum við að eyða þessari tortryggni,“ sagði Ágúst Ólafur. Hann sagði menn þyrftu að átta sig á því að allir væru á sama báti. Kyrrstaða væri ekki valkostur. Svara þyrfti hvert væri og hvert ætti að vera hlutverk ríkisins. „Ég tel nauðsynlegt að hið opinbera beiti félagslega kerfinu í þágu þeirra sem þess þarfnast,“ sagði Ágúst Ólafur. Hann sagði að tekjutengingar gætu verið markviss og skynsamleg aðgerð þegar henni væri beitt rétt. Hann talaði um skattahækkanir andspænis niðurskurði. „Sem jafnaðarmaður tel ég skattaleiðina mun sanngjarnari,“ sagði Ágúst Ólafur.

Ágúst Ólafur sagði aðild Íslands að ESB stærsta hagsmunamálið. „Það er lífsspursmál fyrir Ísland að komast í skjól með evru og minni höftum.“ Ágúst Ólafur sagði að það væri ekki spurning um hvort heldur hvenær Ísland færi í ESB. Samfylkingin ætti að gera aðild að ESB sem skilyrði næsta ríkisstjórnarsamstarfs.

Steingrímur J. gaf lítið fyrir þessar yfirlýsingar Ágústs og kvaðst ekki vera viss um að hann hefði umboð flokks síns til þess að gefa út yfirlýsingar um skilyrði í næsta ríkisstjórnarsamstarfi.

Þorgerður Katrín sagði að aldrei myndi nást sátt um að varanlega ríkiseign á stórum hluta fyrirtækja. „Uppbyggingin verður hægari ef það verður ekki öflugur einkageiri,“ sagði Þorgerður. Hún sagði vandamál bankanna þau að geta ekki sinnt sínu hlutverki, þ.e lána peninga til fyrirtækja og einstaklinga. „Stjórnmálamenn eiga ekki að hafa puttana í þessu. Markmiðið [ætti að vera] að selja fyrirtæki sem ríkið tekur yfir. Og meginmarkmiðið ætti að vera að hafa ríkissjóð skuldlausan,“ sagði Þorgerður.

Formanni Sjálfstæðisflokksins verði veitt umboð til aðildarviðræðna 
Þorgerður sagði að hámarka þyrfti arðsemi þeirra fyrirtækja sem ættu undir högg að sækja. Hún sagði það rétt að erfitt yrði að fara gegn skattahækkunum en fyrsta val ætti að vera ráðdeild í ríkisfjármálum. „Við munum fylgja því eftir, en við þurfum að skapa þannig skattumhverfi að það verði ekki letjandi,“ sagði Þorgerður. „Mér er svolítið brugðið að heyra það [...] að farið verði í skattþrep og aukinn hátekjuskatt,“ sagði Þorgerður og vísaði til núverandi ríkisstjórnar. Hún sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hafi til þessa talið hagsmunum sínum betur borgið utan ESB. Nú væru aðstæður allt aðrar og mikilvægt væri að flokksmenn veittu nýjum formanni Sjálfstæðisflokksins umboð á næsta landsfundi til aðildarviðræðna við ESB. „Við verðum að fá skýr svör,“ sagði Þorgerður. Hún sagði að tvíþætt vandamál myndi leysast með aðild að ESB: „Peningamálastefnan og gjaldmiðillinn og ekki síður orðspor okkar og viðskiptavildin. Getum við verið ein eða er betra fyrir okkur að vera í samstarfi við aðrar þjóðir?“ sagði Þorgerður.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins. mbl.is / Ásdís
Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson mbl.is
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK