Svigrúm er til stýrivaxtalækkana

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ómar

Þróun efnahagsmála hér á landi undanfarna mánuði hefur gróflega verið í samræmi við áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Staða hagkerfisins er erfið en búast má við því að bati hefjist síðar á þessu ári. Kom þetta fram í máli Mark Flanagans, fulltrúa sjóðsins, á fundi í Seðlabankanum í dag. Segir hann að allt útlit sé fyrir að verðbólga hafi nú náð hámarki, fyrr en búist hafði verið við. Þá sé gengi krónunnar nú stöðugt og hafi styrkst aðeins umfram áætlanir.

Var Flanagan hér á landi til að funda með íslenskum stjórnvöldum vegan endurskoðunar á efnahagsáætlun sjóðsins, en hún er endurskoðuð ársfjórðungslega.

Svigrúm til að lækka stýrivexti

Hingað til hefur áætlunin miðað að því að verja þá sem höllum fæti standa vegan kreppunnar, en á næstunni mun áhersla aukast á endurskipulagningu opinberra fjármála. Þá segir hann að koma verði bankakerfinu á réttan kjöl sem first og að létta verði á peningastefnu Seðlabankans sem fyrst.

Þetta geti annað hvort komið fram í afléttingu gjaldeyrishafta eða lækkun stýrivaxta. Segir Flanagan að mat sjóðsins sé að ráðrúm sé til að lækka vexti, en ákvörðun um það liggi hjá Seðlabanka Íslands. Hvað varðar gjaldeyrishöft vildi Flanagan ekki segja annað en að Seðlabankinn geti tekið ákvörðun um afléttingu þegar bankinn telji ástæðu til.

Aðspurður segist Flanagan telja að skuldastaða íslenska ríkisins sé ekki það mikil að ríkið geti ekki staðið við skuldbindingar. Skuldir ríkisins séu vissulega háar, en mat sjóðsins sé að ríkið geti staðið í skilum. Hafa beri í huga að á móti skuldum ríkisins komi einnig töluverðar eignir, innlendar og erlendar.

Hvað varðar opinber fjármál segir Flanagan að áætlun sjóðsins geri ráð fyrir því að árið 2010 verði íslenska ríkið að hagræða í rekstri sínum og að möguleikar til þess hafi verið ræddir við íslensk stjórnvöld núna. Ekki hafi verið teknar ákvarðanir um hvaða leið verði farin til að rétta af rekstur ríkissjóðs, en þær verði væntanlega teknar síðar á þessu ári.

Segir hann að íslensk stjórnvöld hafi komið fram við kröfuhafa bankanna á réttan hátt og ekki mismunað erlendum kröfuhöfum.  

Slæm leið og mjög dýr

Lækkun íbúðalána um 20%, eins og Framsóknarflokkurinn hefur lagt til, væri slæm leið til að leysa vanda heimilanna. Margir fengju þar aðstoð, sem ekki þurfa á henni að halda, og hún yrði afar kostnaðarsöm fyrir ríkið. “Þessi leið væri afar dýr og myndi ekki skila miklum árangri,” segir Flanagan.

Í viljayfirlýsingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda er aðgerðum stjórnvalda lýst og stefnan mótuð fyrir næstu misseri. Á næstu vikum verða nokkur tæknileg atriði vegna áætlunarinnar útkljáð. Í kjölfarið verður ný viljayfirlýsing lögð fyrir stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til umfjöllunar. Búist er við afgreiðslu sjóðsins á vormánuðum og að henni lokinni berst íslenskum stjórnvöldum annar hluti láns hans.

Heildarlánveiting AGS til Íslands nemur 2,1 milljarði bandaríkjadala. Þegar hafa verið greiddar 827 milljónir dala inn á reikning Seðlabanka Íslands í seðlabanka Bandaríkjanna.

Sjá nánar 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK