Kröfuhafar Pennans segja farir sínar ekki sléttar

Eymundsson í Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Eymundsson í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Svo virðist sem kröfuhafar í Pennann ehf. hafi ekki allir fengið sömu skilaboð frá fyrirtækinu um meðferð krafna sinna. Hafa sumir kröfuhafanna fengið vilyrði fyrir greiðslu helmings krafna meðan öðrum er vísað á þrotabú gamla Pennans.

Sumir eru mjög óánægðir með þetta og telja að verið sé að mismuna kröfuhöfum. Í kjölfar þess að Nýja Kaupþing tók yfir rekstur Pennans hófst endurskipulagning á rekstri félagsins. Stofnað var nýtt fyrirtæki utan um reksturinn á nýrri kennitölu. Kröfuhöfum fyrirtækisins var síðan bent á að lýsa kröfum sínum í þrotabúið.

Kennitöluskipti

Morgunblaðið hefur áður fjallað um óánægju kröfuhafa Pennans vegna þessa fyrirkomulags. M.a hefur Ólafur Steinarsson, forstjóri Plastprents, sagt það „mjög vafasamt“ að bankar séu farnir að stunda það að skipta um kennitölur á fyrirtækjum sem þeir yfirtaka og koma þannig í bakið á lánardrottnum sem eiga óveðtryggðar kröfur á hendur viðkomandi fyrirtækjum. „Þetta er einmitt það sem Nýja Kaupþing hefur gert gagnvart Plastprenti vegna viðskipta okkar við Pennann,“ sagði Ólafur í samtali við Morgunblaðið.

Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Nordic Games, hefur svipaða sögu að segja. Nordic Games framleiðir spil og leiki erlendis og hefur selt Pennanum. Guðjón segir farir sínar ekki sléttar. Hann fékk þau skilaboð frá Pennanum, eftir kennitöluskiptin, að krafa hans væri í þrotabú Pennans og hana ætti hann að senda á skiptastjóra.

Nordic Games á kröfu á Pennann vegna umboðssölu á vörum sem þegar hafa verið seldar, en ekki hefur verið greitt fyrir. „Við höfum átt útistandandi kröfur á fyrirtækið frá ársbyrjun og okkur var tjáð áður en Penninn var yfirtekinn að fyrirtækið ætti í viðræðum við sinn viðskiptabanka, Kaupþing og að við myndum fá allt greitt. Síðan var skipt um kennitölu á einni nóttu og okkur vísað á þrotabúið,“ segir Guðjón.

Ingibjörg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri heildverslunarinnar Ársels, hefur fengið önnur skilaboð frá Pennanum, sem nú starfar í skjóli ríkisins. „Okkur var tjáð af starfsmanni Pennans, eftir yfirtökuna, að við myndum fá helming krafna okkar greiddan,“ segir Ingibjörg.

Helgi Júlíusson, forstjóri Pennans, segir að nú standi yfir samningaviðræður við kröfuhafa. „Í langflestum tilfellum eru menn að ná saman um einhverja lendingu,“ segir Helgi. Hann segir að markmiðið sé að ná lendingu í skuldamálum við þá birgja sem fyrirtækið hefur væntingar um að það verði áfram í viðskiptum við. Hann segir að ef ekki náist samkomulag við kröfuhafa sé það sjálfgefið að ekki verði um áframhaldandi viðskiptasamband að ræða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK