Norska hagkerfið stærra en það sænska

Norskar krónur.
Norskar krónur.

Í fyrsta skipti í sögunni er norska hagkerfið nú stærra en það sænska. Samkvæmt tölum, sem sænska hagstofan birti í gær, var landsframleiðsla í Svíþjóð á fyrsta fjórðungi ársins 738 milljarðar sænskra króna, jafnvirði 604 milljarða norskra króna. Fyrr í maí birti hagstofa Noregs tölur sem sýndu að landsframleiðslan fyrstu þrjá mánuði ársins var 616 milljarðar norskra króna eða 1,9% meiri en í Svíþjóð.

Norski viðskiptavefurinn e24 segir frá þessu í dag. Sænska krónan hefur  veikst undanfarna daga og því minnkar verðgildi sænsku landsframleiðslunnar, mælt í norskum krónum. 

„Þetta er merkilegt. Og þetta hefur gerst hratt. Fyrir áratug var landsframleiðsla Noregs aðeins 65% af þeirri sænsku," hefur vefurinn eftir  Øystein Dørum, aðalhagfræðingi DnB Nor Markets.

Höfuðástæðan fyrir miklum vexti landsframleiðslu Noregs er olíuvinnslan í Norðursjó en verð á olíu hefur verið afar hátt síðustu misserin. Þetta hefur aukið verðgildi framleiðslunnar í Noregi þótt hún hafi ekki aukist að magni til.  

Á sama tíma hefur verðmæti framleiðslunnar í Svíþjóð minnkað þar sem verð á raftækjum og öðrum framleiðsluvörum hefur lækkað síðustu ár. E24 segir, að á sama tíma og Noregur hafi notið góðs af „Kínaáhrifunum" vegna þess að innfluttar vörur hafa orðið ódýrari og meira verð hefur fengist fyrir útfluttar vörur hefur þróunin verið þveröfug í Svíþjóð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK