Fréttaskýring: Baugur kominn í þrot í mars 2008 og Kaupþing vissi af því

Þegar Baugur Group fékk útflutningsverðlaun forseta Íslands í september 2008 …
Þegar Baugur Group fékk útflutningsverðlaun forseta Íslands í september 2008 var félagið þegar í greiðsluerfiðleikum. mbl.is/Eggert

Stjórnendur íslensku bankanna, sjóðsstjórar og yfirmenn lífeyrissjóða vissu að Baugur var kominn í greiðsluþrot í mars í fyrra og að önnur stór eignarhaldsfélög væru í reynd gjaldþrota líka. Samtrygging eigenda og stjórnenda bankanna leyfði hins vegar ekki að tekið yrði á málunum. Í stað þess lánuðu fjármálafyrirtækin hvert öðru og biðu eftir kraftaverki sem aldrei kom. Í stað þess hrundi spilaborgin.

Þetta kemur fram í nýrri bók eftir Jón F. Thoroddsen, Íslenska efnahagsundrið: flugeldahagfræði fyrir byrjendur, sem kemur út á morgun.

Baugur löngu farinn

Í bókinni segir að „Stefán Ákason [innsk. blaðam.: þáverandi forstöðumaður skuldabréfamiðlunar Kaupþings] hafi kallað inn skuldabréfamiðlara til sín á fund þann 19. mars 2008. Efni fundarins var staða Baugs Group, sem hafði gefið út skuldabréf á Íslandi fyrir marga milljarða. Stefán á að hafa sagt: „Baugur er ekki að fara að borga.“[...] Farið var með málið eins og mannsmorð innan Kaupþings. [...] Verkefni skuldabréfamiðlaranna var að að hafa samband við eigendur bréfanna og reyna að semja um afföll. Þetta ferli hófst þegar í stað. Þeir sem áttu mest af bréfunum voru t.d. lífeyrissjóðir og peningamarkaðssjóðir bankanna. Það var sem sagt í mars 2008 sem um 30-40 manns á Íslandi fengu vitneskju um að Baugur, sem var stærsti skuldari allra íslensku bankanna, væri kominn í alvarlega greiðsluerfiðleika.“ Viðmælendur Morgunblaðsins staðfestu að miðlarar Kaupþings hafi gengið mjög hart fram í að sannfæra eigendur víxla útgefinna af Baugi um að lengja í afborgunum þeirra. Þetta átti sérstaklega við þegar Baugur gat ekki greitt víxil sem var á gjalddaga þann 14. júlí 2008. Á endanum hafi verið gert upp við smærri eigendur bréfa, en þeir stærri, lífeyris- og peningamarkaðssjóðir, lengdu í afborgunum.

Í bókinni er einnig rætt um mikla ábyrgð og þátttöku þeirra endurskoðenda sem skrifuðu upp á árshlutauppgjör íslensku bankanna á árinu 2008. Niðurstaðan er sú að þeir hafi algjörlega brugðist. Orðrétt segir að það hafi „í raun [verið] merkilegt að íslensku bankarnir skuli hafa fundið einhverja löggilta endurskoðendur til að skrifa upp á reikninga sína í ljósi þess að bæði hlutabréfabólan og húsnæðisbólan voru sprungnar og lánasöfn bankanna ekki upp á marga fiska, svo vægt sé til orða tekið [...] Samt sagði enginn neitt og þaðan af síður var nokkuð gert. Og endurskoðendur skrifuðu upp á þriggja og sex mánaða uppgjör bankanna eins og allt væri í lagi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK