Gamla Kaupþing skuldaði Nýja Kaupþingi fjármuni

Gamla Kaupþing skuldaði Nýja Kaupþingi fjármuni vegna þess að eignir nýja bankans dugðu ekki fyrir innlánum hans, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Þetta kom í ljós þegar búið var að endurmeta þær eignir sem voru fluttar inn í Nýja Kaupþing í október í fyrra.

Skilanefnd Kaupþings, og þar af leiðandi kröfuhafar bankans, stóðu því frammi fyrir því að annaðhvort þyrftu þeir að borga meira fé inn í nýja bankann, og takmarka með því endurheimt sína, eða að leita leiða til að eignast hann að einhverju eða öllu leyti. Kröfuhafarnir vildu frekar eignast hlut en að borga meira fé. Þessi leið var síðan yfirfærð á uppskiptingu milli gamla Glitnis og Íslandsbanka.

Samkvæmt drögum að samkomulagi sem kynnt var fyrir ríkisstjórninni í gær munu skilanefndir Kaupþings og Glitnis eignast ráðandi hlut í Kaupþingi og Íslandsbanka. Tilkynnt verður um meginatriði samkomulagsins á mánudag.

Þegar Nýju bankarnir voru stofnaðir af Fjármálaeftirlitinu (FME) síðastliðið haust fólst í þeirri ákvörðun að þeir myndu yfirtaka allar innstæðuskuldbindingar á Íslandi og sömuleiðis stærstan hluta af eigum bankanna sem tengdust íslenskri starfsemi. Heimildir Morgunblaðsins herma að þegar búið var að endurmeta þær eignir sem voru settar inn í Nýja Kaupþing hafi komið í ljós að virði eignanna var lægra en innstæðurnar. Því hafi gamla Kaupþing í reynd skuldað hinum nýja banka mismuninn til að hann gæti staðið við skuldbindingar sínar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK