Fréttaskýring: Sérfræðingahópur Sarkozy vill verga landshamingju

Joseph Stiglitz á tröppum forsetahallarinnar í París í dag ásamt …
Joseph Stiglitz á tröppum forsetahallarinnar í París í dag ásamt Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands. Reuters

Nicolas Sarkozy og sérfræðingahópur nokkurra virtustu hagfræðinga heims sögðu í dag að ríki heims þyrftu að finna leiðir til að mæla hamingju og vellíðan samhliða grófum hagtölum um vöxt.

Sarkozy var að taka við skýrslu sem unnin var á vegum sérfræðingahópsins en í honum eru meðal annarra Nóbelsverðlaunahafarnir í hagfræði, Jospeh Stiglitz og Amartya Sen, og forsetinn sagði við það tækifæri að Frakkland ætlaði að hafa frumkvæði að nýrri aðferðafræði í þessu efni og hvetja aðrar þjóðir að fylgja á eftir.

Finna þarf nýja mælikvarða 

Skýrsla sérfræðingana birtist þegar mörg hagkerfi virðast vera að komast upp úr efnahagslægðinni þó að atvinnuleysistölur haldi áfram að hækka og neytendavæntingar eru of veikar til að geta knúið fram algjöran viðsnúning.

„Um allan heim heldur almenningur að við séum að skrökva að honum, að tölurnar sé rangar og það sem verra er - að það sé verið að fikta við þær,“ sagði Sarkozy þegar að hann hvatti til þess að fundnir yrðu nýir mælikvarðar fyrir efnahagsþróunina.

„Frakkland mun berjast fyrir því að öll alþjóðasamtök muni endurbæta tölfræðilegar aðferðir. Frakkland mun jafnframt hvetja evrópsk samstarfsríki að ganga fram fyrir skjöldu í þessu efni og endurbæta þess vegna okkar eigin kerfi,“ sagði forsetinn ennfremur.

Samfélag er flókið fyrirbæri

Í febrúar á síðasta ári óskaði Sarkozy eftir því að Stiglitz ásamt um 20 öðrum sérfræðingum tækju að sér að finna nýjar leiðir til að mæla hagvöxt með því að taka einnig tillit til félagslegrar vellíðan.

„Það er engin ein tala sem nær utan um jafn flókið fyrirbæri og samfélag okkar,“ segir Stiglitz í samtali við AFP-fréttastofuna í tilefni af birtingu skýrslunnar í dag. „Það sem við horfum til er þörfin á vandlega völdum tölum með betri skilningi á hlutverki hvers þessara talna fyrir sig.“

Núna er efnahagslegur vöxtur mældur í prósentuhækkunum - eða lækkunum á landsframleiðslu, sem mælir virði þeirra vara og þjónustu sem verða til í hverju landi og hefur löngum verið talin af mörgum nokkuð grófur mælikvarði.

Landsframleiðslan ein og sér geti verið misvísandi varðandi lífsgæði, segir í skýrslunni, t.d. í því tilfelli að aukning eldsneytisneyslu geti gefið mynd af auknum vexti á sama tíma og það endurspeglaði fyrst og fremst óhagræði umferðaröngþveitis og mengun.

„Landsframleiðslan var upphaflega búin til að mæla efnahagsumsvifin en hefur í auknum mæli verið notuð til að mæla félagslega vellíðan. Hún var ekki búin til fyrir slíkt og mælir ekki slíkt,“ segir Stiglitz ennfremur.

Auðlegð Bandaríkjamanna í rúst

Hagfræðingarnir segja að í aðdraganda lánsfjárhrunsins á síðasta ári, þá hafi mörg ríki freistað þess að fylgja vaxtarlíkaninu bandaríska vegna þess að hafi hafi boðið upp á álitlega aukningu landsframleiðslu fyrir Bandaríkin. 

„Jafnvel þótt fjármálageirinn hefði virkað fullkomlega, þá er vandinn að auðlegð Bandaríkjamanna er í rúst, hefur orðið fyrir þungu höggi,“ segir Stiglitz. „Auður flestra Bandaríkjamanna er fólgin í fasteignum þeirra, húsunum, og honum hefur nánast verið tortímt, að minnsta kosti fyrir stóran hluta Bandaríkjamanna.“

Hefðu ríkin einbeitt sér fremur að áætlunum um að auka miðlungslaun heimilanna, hefðu þau væntanlega varið sig betur gegn kreppunni og aukið almenna velmegun íbúanna.

Einna fyrstur til að fagna skýrslunni var Angel Gurria, aðalframkvæmdastjóri OECD, efnahags- og framfarastofnunarinnar, og sagði stofnun sína til að leggja því lið að móta nýja gerð hagvísa. „ Efnahagsmál eru ekki það sem skiptir öllu máli í lífi fólks“, segir hann. „Við þurfum betri mælikvarða um væntingar fólks og ánægjustig, um það hvernig það lifir lífinu ... við þurfum að breikka þetta eignasvið sem við teljum skipta máli til að bera uppi vellíðan okkar.“

Nýtt kerfi mæli landshamingju

Í skýrslunni er lagt til að landsframleiðslan verði eingöngu notuð til að mæla efnahagsumsvifin og að nýtt kerfi taki til umhverfis, heilsu, öryggis og menntunar, eða það sem kallað hefur verið í sérfræðingahópnum Verg landshamingja.

Ríkin eiga að birta ársskýrslur, rétt eins og fyrirtækin gera, og tölurnar sem fram koma eiga að að mæla kaupgetu heimilanna og jafnræði milli kynja, aldurshópa og stétta.

Þessi gögn eiga að vera þannig sett fram að stjórnmálamenn og stjórnsýslan geti notað þau til að meta „vellíðan“ íbúanna og gert áætlanir til að bæta hana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka