Pálmi: Öll skilyrði fyrir arðgreiðslu fyrir hendi

Pálmi Haraldsson
Pálmi Haraldsson mbl.is/Þorkell

Pálmi Haraldsson, fyrrum meirihlutaeigandi Fons, segir í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gærkvöldi að arðgreiðsla Fons árinu 2007 vegna rekstrarársins 2006 hafi verið tekin á lögmætum hluthafafundi félagsins að tillögu stjórnar þess með samþykki eina lánveitanda félagsins á þeim tíma. Eigið fé félagsins var á þessum tíma fjörutíu milljarðar. Öll skilyrði arðgreiðslu samkvæmt hlutafélagalögum voru því fyrir hendi, þegar ákvörðunin var tekin.

„Í ljósi fréttaflutnings nú síðdegis um riftunarmál þb. Fons á hendur mér persónulega og Eignarhaldsfélaginu Feng hf. vil ég taka eftirfarandi fram:

Arðgreiðsla Fons á árinu 2007 vegna rekstrarársins 2006 var tekin á lögmætum hluthafafundi félagsins að tillögu stjórnar þess með samþykki eina lánveitanda félagsins á þeim tíma. Eigið fé félagsins var á þessum tíma fjörutíu milljarðar. Öll skilyrði arðgreiðslu samkvæmt hlutafélagalögum voru því fyrir hendi, þegar ákvörðunin var tekin.

Kaup Fengs á breska flugfélaginu Astraeus voru gerð á grundvelli verðmats óháðs þriðja aðila í Bretlandi. Hefðu kaupin ekki átt sér stað hefði Astraeus orðið gjaldþrota, enda voru bresk flugmálayfirvöld á þessum tíma búin að setja sem skilyrði að eigið fé félagsins yrði aukið.

Fons gerði fjárfestingarsamning á árinu 2008 við Þú blásól ehf., félag í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, að fjárhæð kr. 1.000 milljónir. Í bókhaldi Fons eru engar tólf færslur vegna þessarar ráðstöfunar, né tengdist þessi ráðstöfun öðrum málum.

Milli Fengs og Fons voru leigusamningar um húsnæði sem Fons notaði í starfsemi sinni. Leigukjör voru á markaðskjörum.

Önnur mál sem skiptastjóri hefur höfðað eru minniháttar, en lögmætar útskýringar eru til við þeim öllum.

Ég hef látið endurskoðendur og lögfræðinga fara yfir málin. Þeirra niðurstaða er að löglega hafi verið staðið að öllum þeim viðskiptum sem riftunarkröfur þrotabúsins lúta að og því sé ekki um riftanlega gjafagerninga að ræða," segir í yfirlýsingu frá Pálma.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Óskar Sigurðsson, skiptastjóri Fons hf., kynnti helstu kröfuhöfum þau riftunarmál sem hann hefur nú stefnt fyrrverandi eigendum Fons og tengdum aðilum vegna. Samtals nema kröfur skiptastjóra tæpum níu milljörðum króna og stefnurnar eru á annan tug.

Stærstu einstöku kröfurnar eru, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, riftunarkröfur upp á um 7,8 milljarða króna. Krafist er riftunar á arðgreiðslu upp á 4,2 milljarða króna vegna ársins 2006, sem innt var af hendi 14. september 2007, og endurgreiðslu á arðinum. Krafist er riftunar á sölu Fons á breska flugfélaginu Astraeus, sem flýgur fyrir Iceland Express, til Fengs ehf. upp á 50 þúsund bresk pund og að Fengur endurgreiði raunvirði félagsins, sem skiptastjóri lét verðmeta. Endurgreiðslukrafan hljóðar upp á 3,5 milljarða króna.

Jón Ásgeir Jóhannesson er krafinn um endurgreiðslu á einum milljarði króna, sem Fons greiddi honum inn á einkareikning hans sumarið 2008.

Þá er gerð krafa á Pálma Haraldsson um að hann endurgreiði 47,4 milljónir króna, sem greiddar voru til félagsins Chalk Investment, sem skráð er á Tortola. Þær greiðslur munu hafa verið vegna leigu á einu eign Chalk Investment, íbúð í London, sem Pálmi hefur haft afnot af og búið í undanfarin ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK