Segir fréttir RÚV rangar

Jón Þorsteinn Jónsson.
Jón Þorsteinn Jónsson. Rax / Ragnar Axelsson

Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs sparisjóðs, segir það ekki rétt sem fram hafi komið í fréttum Ríkissjónvarpsins að undanförnu að félög honum tengd skuldi Byr um þrjá milljarða króna og að afskrifa þurfi um helming þeirrar upphæðar.

„Fréttastofa Ríkissjónvarpsins hefur síðastliðna daga fjallað um lánveitingar Byr sparisjóðs til nokkurra fyrrum eigenda sinna og því hefur verið haldið fram að félög tengd mér skuldi Byr um þrjá milljarða króna og að afskrifa þurfi um helming þeirrar upphæðar. Þetta er ekki rétt. Ég hef ítrekað beðið fréttastofu Sjónvarps um að leiðrétta þennan fréttaflutning en án árangurs. Því vil ég óska eftir því að fá að koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Í samskiptum mínum við fréttamann Ríkissjónvarpsins kom fram að frétt hans byggðist á upplýsingum um lán til fyrirtækjanna Saxhóls ehf, BYGG ehf, BYGG Invest ehf. og Saxbygg ehf. Þaðan munu þessar háu fjárhæðir vera komnar, sem ég kannast ekki við.

Skoðum málið:

  • Fjárfestingarfélag mitt Saxhóll ehf. skuldaði Byr á sínum tíma tæpan milljarð króna. Þess var þó ekki getið í frétt Ríkissjónvarpsins að það lán er að fullu uppgert sparisjóðnum með öllum vöxtum og gjöldum. Engar afskriftir á mig þar.
  • BYGG ehf., sem skv. fréttamanninum skuldar Byr um 300 milljónir króna er mér með öllu ótengt, en það lán mun einnig vera uppgert. Það eru því engar afskriftir á mig þar heldur.
  • Fyrirtækið BYGG Invest ehf., sem skv. fréttamanninum skuldar Byr ríflega 1100 milljónir króna, er mér aukinheldur algerlega óviðkomandi og skuldauppgjör þess sömuleiðis.
  • Það er aftur á móti rétt að fyrirtækið Saxbygg ehf., þar sem ég var á meðal eigenda, er með 418 milljóna króna lán (á núgildandi gengi) hjá Byr sparisjóð. Félagið, sem nú er í skiptameðferð, útvegaði sparisjóðnum á sínum tíma tryggingar fyrir þessari fjárhæð. Vonandi halda þær tryggingar og mun þá ekki þurfa að koma til afskrifta vegna þessa láns.

Það sér hvert mannsbarn að himinn og haf er á milli þess að skulda 3 milljarða annars vegar eða 418 milljónir hins vegar. Það er mikill munur á að vera valdur að 1,5 milljarða útlánatapi eða litlum eða engum afskriftum nema tryggingar bregðist. Þó ýmislegt sé um mann skrifað, bæði satt og logið, þá er ekki hægt að láta hjá líða að leiðrétta svona rangfærslur.

Ég vil taka fram að ég skil sárindi stofnfjáreigenda í sparisjóðnum Byr. Sjálfur varð ég fyrir miklu eignatapi vegna efnahagshrunsins og var með nær allar eignir mínar í tveimur félögum, Saxhól og Saxbygg, sem nú er verið að skipta upp á milli lánadrottna. Mikill hluti eigin fjár þessara fyrirtækja hafði byggst upp á síðustu öld – löngu fyrir eignabólu síðustu ára. En því miður fór ég, eins og svo margir, of geyst í skuldsetningu síðustu árin fyrir hrunið og því fór sem fór.
Í ljósi ofangreinds er ljóst að framsetning fréttar Ríkissjónvarpsins er, hvað mig varðar, í engu samræmi við veruleikann.

Þess má að lokum geta að undirritaður hefur, hvorki fyrr né síðar, fengið persónulega lánafyrirgreiðslu hjá Byr sparisjóð," segir í yfirlýsingu sem Jón Þorsteinn Jónsson ritar undir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK