Icelandair á athugunarlista

Hlutabréf Icelandair Group hf.hafa verið færð á athugunarlista Kauphallarinnar með vísan til upplýsinga í tilkynningu með uppgjöri félagsins sem birt var á föstudag um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins.

Tap Icelandair Group eftir skatta var 10,7 milljarðar króna á síðasta ári en var 7,5 milljarðar króna árið 2008.

Handbært fé í lok ársins 2009 var 1,9 milljarðar króna, en var 4,1 milljarður árið áður.

Í tilkynningu félagsins frá því á föstudag kemur fram að erlendar fjárfestingar hafa verið félaginu erfiður ljár í þúfu. Á árinu 2009 voru 4,2 milljarðar króna gjaldfærðir vegna taprekstrar og afskrifta viðskiptakrafna og óefnislegra eigna vegna lettneska flugfélagsins SmartLynx.

Til viðbótar nam gjaldfærsla vegna tékkneska flugfélagsins Travel Service um 1,9 milljarði króna á árinu. Þar af nam gjaldfærsla eldsneytisvarna um einum milljarði króna og 900 milljónum vegna sölu á hlut í félaginu undir bókfærðu virði. Hvorugt félag tilheyrir kjarnastarfsemi Icelandair Group og stjórn fyrirtækisins hefur ákveðið að selja bæði félögin.

Stjórn Icelandair hefur ákveðið að hætta að skilgreina samstæðuna sem fjárfestingarfélag eins og ákvörðun stjórnar á sölu á eignarhlutum í SmartLynx, Bluebird og Travel Service sýnir, að því er segir í tilkynningu.

Fjárhagsleg endurskipulagning félagsins er á lokastigum. Það hefur legið fyrir lengi að Icelandair Group er of skuldsett og vaxtabyrði þess er of há. Nauðsynlegt er að sú endurskipulagning efnahagsreiknings sem stóð yfir allt árið 2009 klárist á næstunni þannig að tryggt sé að rekstur félagsins standi undir vaxta- og greiðslubyrði af lánum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK