Krónan styrkist í litlum viðskiptum

mbl.is/Júlíus

Gengi krónunnar hefur haldið áfram að styrkjast og er gengisvísitalan 223,18 stig. Er það lægsta gildi hennar frá því fyrir tæpu ári síðan, samkvæmt Morgunkorni Íslandsbanka. Lítil viðskipti hafa verið á millibankamarkaði með gjaldeyri undanfarna mánuði.

Krónan hefur haldið áfram að styrkjast gagnvart evru nú í morgun og kostar evran nú 164,25 kr. á millibankamarkaði með gjaldeyri. Hefur krónan ekki verið jafn sterk gagnvart evru síðan í byrjun apríl í fyrra.

Greining Íslandsbanka telur líklegast að styrking krónunnar eigi rætur að rekja til aukins gjaldeyrisinnflæðis vegna afgangs af vöru og þjónustuviðskiptum og ólíklegt að inngrip Seðlabanka skýri styrkinguna nú.

„Fram að styrkingarhrinu undanfarinna daga hafði verið afar rólegt á millibankamarkaði með gjaldeyri síðustu mánuði. Sér í lagi voru viðskipti þar strjál í aprílmánuði þegar heildarveltan nam einungis 512 m.kr. Til samanburðar má nefna að á sama tíma í fyrra nam heildarveltan á millibankamarkaði 4,1 ma.kr. og í raun hefur aldrei verið jafn rólegt á millibankamarkaði með gjaldeyri og einmitt í apríl síðastliðnum.

Nú hefur Seðlabankinn haldið sig fjarri gjaldeyrismarkaði allt frá ársbyrjun og í raun gott betur þar sem síðustu inngrip bankans voru 6. nóvember síðastliðinn. Þó ber að hafa í huga að þrátt fyrir að velta á millibankamarkaði sé afar lítil geta gjaldeyrisviðskipti hjá hverjum viðskiptabanka fyrir sig verið talsverð. Ef þokkalegt jafnvægi er í innflæði gjaldeyris og útflæði hjá hverjum banka fyrir sig hafa þeir þannig ekki þörf fyrir að leita á millibankamarkað með kaup eða sölu gjaldeyris," segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK