Gagnavinnsla Opera til Íslands

Jón S. von Tetzchner.
Jón S. von Tetzchner. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Norska fyrirtækið Opera Software ætlar að flytja stóran hluta gagnavinnslu sinnar til Íslands. Samningur þar að lútandi verður undirritaður í dag þegar fyrsta íslenska gagnaverið verður gangsett í dag. Jón S. von Tetzchner stofnandi Opera Software mun undirrita samningana fyrir hönd fyrirtækisins.

Í dag klukkan tólf á hádegi munu forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson og iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, gangsetja fyrsta íslenska gagnaverið, við Steinhellu í Hafnarfirði. Það er íslenska fyrirtækið Thor Data Center sem byggt hefur og reka mun gagnaverið.  Fyrirtækið er stofnað af nokkrum íslenskum frumkvöðlum úr tölvugeiranum og með þátttöku íslenskra framtaksfjárfesta. Jón Viggó Gunnarsson er framkvæmdastjóri Thor og Guðmundur Gíslason er stjórnarformaður Thor.

Samningur Opera Software og Thor Data er tvíþættur:  Annars vegar er um að ræða samkomulag við Thor Data Center um gagnageymsluna hins vegar við íslenska fjarskiptafyrirtækið E-Farice um flutning gagnanna um sæstrengi á milli Noregs og Íslands og bækistöðva Opera sem eru víða um heim.

Jón er íslenskur að hálfu og bjó hér á landi þar til hann hélt til háskólanáms í Noregi. Hann stofnaði Opera fyrir réttum 18 árum og er fyrirtækið nú með yfir 110 milljónir notenda um heim allan, að því er segir í tilkynningu.

„Undirbúningur að stofnun gagnaversins hefur farið fremur hljótt en hann hófst af alvöru fyrir aðeins 18 mánuðum síðan.  Þessi skammi tími sem liðinn er frá stofnun fyrirtækisins og þar til að gagnageymsla fyrir erlenda viðskiptavini gat hafist, var mögulegur vegna nýtingar á nýrri tækni í hönnun gagnavera sem rutt hefur sér til rúms á síðustu tveimur árum.

Sú tækni felur í sér að gagnaverin eru samsett af fleiri minni einingum (svokölluðum gagnagámum) og býður það upp á meiri sveigjanleika í umfangi og uppbyggingu. Microsoft, Google og Hewlett-Packard eru á meðal fyrirtækja sem veðjað hafa á þessa útfærslu gagnavera og slík ver rísa nú víða um heim. Thor DC er í samstarfi við spænskt hátæknifyrirtæki sem náð hefur forystu í framleiðslu slíkra gáma og hefur það sýnt uppbyggingunni hér á landi mikinn áhuga," segir í fréttatilkynningu.

Frá fyrsta degi sem starfsemi þess hefst telst Thor gagnaverið vera umhverfisvænasta gagnaver í heimi, samkvæmt fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Bæði er það vegna þeirrar tækni sem það notar og vegna þess að það nýtir einungis endurnýjanlega orku. Gagnaverið hefur tryggt sér 3,2 megawatta raforku frá HS Orku á Suðurnesjum og allt að 19,2 megawött ef þörf verður á. Gagnaverið Thor er fyrsta gagnaverið af þessum toga sem tekið er í notkun á Íslandi og Opera Software er fyrsta erlenda stórfyrirtækið sem færir gagnavörslu sína til Íslands.

Haft er eftir Jóni S. von Tetzchner í tilkynningunni, að ástæða þess að Opera Software ákveði að semja við Thor Data Center sé sú að fyrirtækið geti boðið okkur upp á 100% endurnýjanlega orku. Framboð á orku á Íslandi verði fyrirsjáanlega stöðugra en víða annars staðar á næstu árum og sú staðreynd í bland við tæknikunnáttu hjá Thor DC sé megin ástæða þess að Opera Software hafi tekið ákvörðun um að hýsa gögn sín hér á landi.

„Það er jafnframt mikið ánægjuefni, ekki síst fyrir mig persónulega vegna tengsla minna við Ísland, að geta átt þátt í að styrkja efnahag Íslands á þeirri stundu þegar landið þarfnast þess mest við. Ég hlakka til að eiga áframhaldandi samstarf við frumkvöðlana hjá Thor DC og fylgjast með uppbyggingu gagnaversiðnaðar hér á landi. Ljóst er að Íslendingar eiga mikil tækifæri á þessu sviði. Nýsköpun og þor er rétta leiðin út úr kreppunni og Ísland þarf einskis að kvíða ef þetta verða áherslurnar," segir Jón.

Merki Thor Data Center
Merki Thor Data Center
Merki Opera Software
Merki Opera Software
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK