Ungversk stjórnvöld gefa AGS langt nef

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. REUTERS

Matsfyrirtækið Moody's hefur sett lánshæfismat ungverskra stjórnvalda á neikvæðar horfur. Ákvörðunin er tekin í kjölfar þess að Viktor Orban, forsætisráðherra, lýsti því yfir í ræðu á þinginu í gærkvöldi að stjórnvöld þyrftu ekki lengur á aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að halda.

Orban sagði meðal annars í ræðu sinni að ungverska hagkerfið myndi ekki vaxa á ný fyrr en að stjórnvöld myndu ná aftur fullum yfirráðum yfir efnahagsstefnu sinni. Sem kunnugt er slitnaði síðustu helgi upp úr viðræðum stjórnalda í Búdapest og AGS um næstu greiðslur af 20 milljarða evra lánalínu sem sjóðurinn ákvað ásamt Evrópusambandinu að kasta til Ungverjalands haustið 2008. Ástæðan fyrir viðræðuslitunum voru deildar meiningar um hvaða leið stjórnvöld ættu að feta til þess að fjárlagahalla landsins niður í 3% af landsframleiðslu fyrir lok næsta árs.

Ungversk stjórnvöld hafa náð fjárlagahallanum niður úr um 9% í tæp 4% á undanförnum árum með aðhaldi og niðurskurði í ríkisfjármálum. Þau hyggjast ná honum frekar niður meðal annars með  sértækri skattlagningu á bankarekstur en sérfræðingar AGS telja þá leið ekki líklega til þess að skila árangri til lengri tíma litið.

Þrátt fyrir að viðræðurnar hafi runnið út í sandinn virðist sem svo að stjórnvöld í Ungverjalandi hafi eitthvað svigrúm til þess að athafna sig án aðkomu sjóðsins. Þannig hafa þau ekki þurft að draga á lánalínuna frá áramótum og að sögn kunnugra hafa þau að mestu fjármagnað skuldbindingar sínar út árið af eigin rammleik. 

Fram kemur í tilkynningu Moody's að efnahagsstefna stjórnvalda glati trúverðugleika án aðkomu AGS og grafi undan trausti manna á því að þau ætli sér að koma böndum á ríkisfjármálin. Það sama gildi fyrir trú manna á gjaldmiðli landsins en hún skiptir sköpun vegna mikilla erlendra skulda ungverska ríkisins og einkageirans.

Samkvæmt Moody's myndi fyrirtækið staðfesta núverandi lánshæfismat ungverskra stjórnvalda á ný ef að stjórnvöld taka af öll tvímæli um að þau ætli sér að ná fram markmiðum efnahagsáætlunar AGS.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK