Hagvöxtur á evru-svæði kemur Íslendingum vel

Íslensk ferðaþjónusta nýtur góðs af hagvexti í ríkjum ESB
Íslensk ferðaþjónusta nýtur góðs af hagvexti í ríkjum ESB mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vaxandi hagvöxtur á evrusvæðinu nýtist, að mati Greiningar Íslandsbanka, íslenska hagkerfinu vel. Hagvöxtur á evrusvæðinu var 1% á milli fyrsta og annars ársfjórðungs í ár. Er þetta meiri hagvöxtur en spáð hafði verið. Sami hagvöxtur mældist í aðildarríkjum ESB að meðaltali á tímabilinu. Hagvaxtartölur fyrir annan ársfjórðung hafa ekki verið birtar fyrir Ísland.

Er þetta mesti hagvöxtur sem mælst hefur á evru-svæðinu frá árinu 2006. Hagvöxturinn hefur verið að taka við sér á svæðinu en á fyrsta ársfjórðungi í ár var hagvöxturinn 0,2% þ.e. bæði á evrusvæðinu og í ESB, samkvæmt Morgunkorni Íslandsbanka.

Meiri hagvöxtur á evru-svæði en Bandaríkjunum

„Afar mismunandi gangur er í hagkerfum aðildarríkja evrunnar og ESB. Þannig var verulegur hagvöxtur eða 2,2% í Þýskalandi á öðrum ársfjórðungi. Er þetta mesti hagvöxtur á einum ársfjórðungi sem þar hefur mælst frá sameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands 1990. Var þessi hagvöxtur verulega umfram spár.

Hagvöxturinn var einnig umfram spár í Frakklandi sem jókst um 0,6% á öðrum ársfjórðungi. Þá var ágætur hagvöxtur í Bretlandi á fjórðungnum eða 1,1%. Samdráttur var hins vegar 1,5% í Grikklandi en erfiðleikarnir sem það hagkerfi hefur gengið í gengnum undanfarið hefur augljóslega hægt á gangi efnahagsstarfseminnar þar í landi.

Hagvöxtur á evrusvæðinu var meiri en í Bandaríkjunum á öðrum ársfjórðungi þar sem vöxturinn var 0,6%. Styrktist evran nokkuð við tíðindin gagnvart dollaranum en hún hefur verið að lækka allhratt gagnvart dollaranum undanfarið. Hlutabréf evrópskra fyrirtækja tóku einnig nokkurn fjörkipp í kjölfar birtingar hagvaxtartalnanna," segir í Morgunkorni.

Hjálpar við að endurvekja hagvöxt á Íslandi

Greining Íslandsbanka segir að ferðaþjónusta á Íslandi njóti þess nú að aukin velmegun er á evrusvæðinu og almennt í ríkjum ESB.

„Bætist það við þau áhrif sem lágt raungengi hefur á gang greinarinnar. Svipað má segja um aðra útflutningsstarfsemi en ESB ríkin eru stærsta viðskiptasvæðið í utanríkisviðskiptum Íslendinga. Vaxandi hagvöxtur í ríkjum ESB hjálpar því til við að endurvekja hagvöxt hér á landi," segir ennfremur í Morgunkorni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK