Gjaldmiðilsleið Íslands lokuð Írum

Fólk á O'Connell brúnni í miðborg Dublin.
Fólk á O'Connell brúnni í miðborg Dublin. Reuters

Breska viðskiptablaðið Financial Times fjallar í dag um efnahagsvanda Írlands í fréttaskýringu og segir meðal annars að margt sé líkt með þeim vanda og vandamálunum, sem Íslendingar hafa þurft að glíma við. Einn stór munur sé þó á, sá að Írar njóti ekki sveigjanleika fljótandi gjaldmiðils eins og Íslendingar. 

Financial Times segir, að skömmu eftir fjármálahrunið haustið 2008 hafi brandari gengið um evrópska fjármálasamfélagið: Hver er munurinn á Írlandi og Íslandi? Einn stafur og hálft ár.

Tveimur árum síðar virðist spá þessa harðneskjulega húmors hafa ræst ef undan sé skilin tímalengdin. Írar standi nú frammi fyrir því, að þiggja tugi milljarða evra í neyðarlán vegna afleitrar stöðu írska bankakerfisins líkt og Ísland fékk marga milljarða evra í neyðaraðstoð í nóvember 2008. 

Og það sé margt fleira líkt með löndunum tveimur. Bæði séu litlar eyjar í Norður-Atlantshafi sem fengu ekki fullt sjálfstæði fyrr en á 20. öld og í báðum löndum hafi verið efnahagsuppgangur fyrir hrun sem tengja megi kæruleysi í fjármálakerfinu. 

Írar vilja líkt og Íslendingar halda fast í sjálfstæði sitt og hafa því reynt að komast hjá því verða upp á náð og miskunn Evrópusambandsins og Alþjóðgjaldeyrissjóðsins komnir. Financial Times segir, að Írar hafi þó gefið eftir mikilvægan hluta af sjálfsstjórn í efnahagsmálum þegar þeir fengu aðild að evrusvæðinu árið 1999. Ísland hafi hins vegar staðið utan Evrópusambandsins. 

Þetta hafi þó virst ætla að koma Íslendingum í koll þegar gengi íslensku krónunnar hrundi árið 2008 og sem aftur leiddi til hruns bankakerfisins sem hafði hlaðið upp gríðarháum erlendum skuldum. Nokkrum mánuðum síðar sótti íslenska ríkisstjórnin um aðild að Evrópusambandinu og setti stefnuna á evru.  

En tveimur árum síðar hafi stuðningur við ESB-aðild minnkað mikið á Íslandi og ekki sé ljóst hvort það sé ókostur að standa utan við evrusamstarfið. Útflutningsgreinar Íslands, þar á meðal álframleiðsla, blómstri vegna veikrar krónu og einnig hafi ferðamönnum þar fjölgað. Þetta hafi dregið úr högginu, sem varð í bankahruninu. 

Írar njóti hins vegar ekki sveigjanleika fljótandi gengis sem geti dregið úr fjármálahögginu. Því sé hugsanlega betra að bera Írlands saman við Lettland, sem fékk aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins árið 2008. Lettar hafa eigin gjaldmiðil en tengja gengi hans við evru. Þess vegna hafi landið þurft að ganga í gegnum sársaukafullan samdrátt, þar á meðal mikla launalækkun. Hagkerfið dróst saman um nærri 20% á síðasta ári og atvinnuleysi komst í 23% þegar stjórnvöld reyndu að ná erfiðum markmiðum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti.

En Financial Times segir, að sjálfstæður gjaldmiðill hafi ekki heldur ekki verið neitt töfralyf á Íslandi. Mörg heimili hafi tekið gjaldeyrislán á uppgangstímunum og þau hafi hækkað gríðarlega þegar gengi krónunnar hrundi. Þrýst hafi verið á ríkisstjórnina að samþykkja skuldalækkun en það gæti reitt alþjóðlega lánardrottna til reiði og stofnað í hættu markmiðum sem landið hafi samið um við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. 

Írar muni án efa þurfa að taka erfiðar ákvarðanir af svipuðu tagi. Segir Financial Times að Enda Kelly, leiðtogi stærsta stjórnarstöðuflokksins, Fine Gael, hafi lýst því vel þegar hann sagði í umræðum: „Það er búið að lyfta hvíta flagginu, það er búið að kasta handklæðinu og eins og brotsjóirnir undan vesturströnd Írlands eru Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið á leiðinni."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK