Ekki sami þrýstingur á lausn Icesave og áður

Friðrik Már Baldursson, hagfræðingur (t.v.).
Friðrik Már Baldursson, hagfræðingur (t.v.).

Þrátt fyrir að færa megi rök fyrir því að best sé að leysa Icesave-málið og horfa fram á veginn, eru Íslendingar ekki undir sömu tímapressu og áður. Þetta er mat Friðriks Más Baldurssonar, prófessors.

Friðrik birtir í dag grein á vefinn voxeu.org þar sem hann ræðir ástand og horfur í Icesave-deilunni. Hann segir að með nýjustu Icesave-samningunum hafi tekist að hafa áhrif á lykilbreytu samninganna, nefnilega vaxtaprósentuna á kröfu Breta og Hollendinga. 

„Nýja samkomulagið er mun betra en síðasta útgáfa þess. Væntur núvirtur kostnaður (miðað við forsendur fjármálaráðuneytisins) fyrir Ísland hefur þannig lækkað úr 10% af vergri landsframleiðslu í 4%.“

Friðrik nefnir að kostnaðurinn við frestun á úrlausn Icesave-málsins sé óljós. Fyrst um sinn hafi virst sem engin erlend lánafyrirgreiðsla myndi fást afgreidd til Íslands, væri Icesave enn í lausu lofti. Þar af leiðandi hefði greiðslufall ríkisins við lok árs 2011 verið óumflýjanlegt. Af þessu hafi hins vegar ekki orðið. Friðrik segir óljóst hvers vegna Bretar og Hollendingar horfið frá hótunum sínum þess efnis að komið yrði í veg fyrir erlenda lánafyrirgreiðslu til Íslands. Telur Friðrik að umsókn Íslands um aðgöngu að Evrópusambandinu kunni að hafa haft einhver áhrif þar. Prófessorinn telur engu að síður að frestun á lausn deilunnar hafi haft slæm áhrif á fjármögnun íslenskra fyrirtækja, til að mynda orkuframleiðenda.

„Því er óljóst hvort það hafi verið í efnahagslega þágu Íslands að hafna fyrra Icesave-samkomulaginu; kostnaður vegna þess kann að vega þyngra en ágóðinn,“ segir Friðrik.

Hann heldur því fram að með lausn Icesave-deilunnar muni erlendir fjármagnsmarkaðir opnast Íslandi, samskipti við nágrannaþjóðir muni batna, erlend fjárfesting muni aukast og hagvöxtur taka við sér. Einnig telur Friðrik að auðveldara verði að afnema gjaldeyrishöftin, með lausn Icesave-deilunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK