Krónan kallar á breytilega húsnæðisvexti

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, segir að ef Íslendingar ætli að halda í krónuna og reka hér sjálfstæða peningamálastefnu þá verði þeir að taka upp breytilega vexti á húsnæðislánum. Nauðsynlegt sé að vextir Seðlabankans bíti, en það hafi þeir ekki gert fyrir hrun.

Gylfi sagði þetta á fundi sem Sjálfstæðir Evrópumenn stóðu fyrir um gjaldmiðils- og peningamál í Háskólanum í Reykjavík. Yfirskrift fundarins var Krónan, bjargvættur eða bölvaldur?

Gylfi sagði vissulega rétt að einstaklingar hefðu  fyrir hrun tekið áhættu og hagað sér með ábyrgðarlausum hætti, en kerfið hefði hins vegar verið brothætt. Bankakerfið hefði farið á hliðina og því augljóst að stjórn peningamála hefði brugðist.

Gylfi  sagði að menn gætu verið hér áfram með krónu, en það kostaði fjármuni. Menn þyrftu að skoða hvað kostnaðurinn væri mikill og hversu háan kostnað menn sættu sig við af sjálfstæðri mynt.

Kerfisáhætta

Gylfi og Illugi Gunnarsson, alþingismaður, voru sammála um að kerfisáhætta hefði fylgt því kerfi sem Íslendingar bjuggu við, þ.e. frjálst flæði fjármagns þar sem Seðlabankinn lagði áherslu á verðbólgumarkmið. 

„Ég er algerlega sannfærður um að ef við ætlum að nota íslenska krónu þá getum við aldrei farið í það að hækka vexti eins mikið og við gerðum. Dagar sjálfstæðrar peningastefnu á grundvelli krónu eru liðnir. Það verður ekki hægt að gera þetta þannig að við séum með verðbólgumarkmið eins og við vorum með og frjálst flæði á fjármagni og að við færum vaxtastigið eins og okkur hentar,“ sagði Illugi,

Hann sagðist ekki þar með vera að segja að við gætum ekki notað krónu til framtíðar. Við yrðum hins vegar að halda mun betur utan um opinber fjármál. Stjórnmálmenn hefðu haft tilhneigingu til að líta á verðbólguna sem vandamál Seðlabanka sem kæmi ríki og sveitarfélögum ekki við. Illugi sagðist velta fyrir sér hvort ekki þyrfti að taka upp fasta fjármálareglu, en benti um leið á að Alþingi væri án efa ekki tilbúið til að láta frá sér fjárveitingarvaldið.

Illugi lýsti efasemdum um að Íslendingar gætu algerlega losnað við höft eða takmörk á fjármagnsflutninga ef það ætti að halda halda í krónuna. Hann velti t.d. fyrir sér hvort ætti að leggja skatta á fjarmagnsflutninga. Vaxtabreytingar gætu valdið því að það yrðu það miklir tilflutningar á fjármagni og að Íslendingar réðum ekki við neitt. „Þetta er kostnaður sem myndi fylgja krónunni og hann er umtalsverður.“

Vextir slái á eftirspurn

Gylfi sagði að reynslan af þeirri peningastefnu sem fylgt hefði verið væri ekki góð. Ef Íslendingar ætluðu að halda áfram að nota krónu yrðu þeir að búa svo um hnútana að hægt verði að bregðast við þenslu í hagkerfinu og þar skipti mestu máli að vextir slægju á eftirspurn. Fyrir hrun hefði kerfið verið þannig að Seðlabankinn hækkaði og hækkaði vexti en fólk og fyrirtæki hefðu leitað eftir því að taka lán í annarri mynt til að forðast þessa vexti. Kerfið hefði þannig búið til áhættu.

Gylfi sagði að háir vextir Seðlabankans hefðu heldur ekki slegið á þenslu vegna þess að allar húsnæðisskuldir þjóðarinnar væru með fasta vexti. Þetta væri sérkennilegt í ljósi þess að vaxtahækkunin hefði komið til vegna eignabólu. Þess vegna þyrftu vextir að vera breytilegir á húsnæðisskuldum svo að þeir hefðu raunveruleg áhrif og þá þyrfti heldur ekki að hækka þá jafnmikið og Seðlabankinn gerði fyrir hrun.

Gylfi sagði að einnig þyrfti að banna sveitarfélögum að taka erlend lán þar sem tekjur þeirra væru í krónum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK