Segir lánið hafa verið löglegt

Hæstiréttur.
Hæstiréttur. mbl.is/GSH

Landsbankinn heldur því fram að lán, sem bankinn veitti Motormax ehf. hafi verið í erlendri mynt, en ekki gengistryggt krónulán, en málflutningur í málinu fer nú fram fyrir Hæstarétti.

Héraðsdómur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að um gengistryggt krónulán væri að ræða og því ólöglegt lán. Aðalsteinn E. Jónsson, lögmaður Landsbankans, gerir því þá kröfu fyrir hönd bankans að 275 milljóna króna krafa hans verði viðurkennd sem veðkrafa í þrotabú Motormax.

Í málflutningi sínum sagði lögmaðurinn að lánið sé skilgreint sem erlent lán í lánasamningi, það hafi verið greitt út í erlendri mynt, hafi verið endurgreitt í erlendri mynt, allar tilkynningar og kvittanir hafi verið í erlendri mynt og vaxtaskuldbinding hafi verið í erlendri mynt. Þá hafi samskipti aðila sýnt að þeir gerðu báðir ráð fyrir því að um erlent lán væri að ræða og að það hafi verið skilgreint þannig í bókhaldi Motormax.

Lánið Motormax til hagsbóta

Hann segir að þegar lánið var greitt út hafi það verið gert með þeim hætti að færð var tiltekin upphæð af gjaldeyrisreikningum Landsbankans, þessi erlendi gjaldeyrir hafi verið seldur á markaði og andvirðið var fært á reikning Motormax. Þetta hafi verið gert að ósk Motormax, en allt eins hefði verið hægt að færa erlenda gjaldeyrinn inn á gjaldeyrisreikning Motormax og svo selt á markaði, en það eigi hins vegar ekki að ráða því hvort litið er á lánið sem erlent eða krónulán.

Til vara segir bankinn að þótt Hæstiréttur líti svo á að um krónulán hafi verið að ræða þá beri ekki að líta á það sem ólöglegt lán, því það hafi verið til hagsbóta fyrir Motormax. Vextir hafi verið lægri en ef um venjulegt krónulán hefði verið að ræða og þegar samningurinn var gerður hafi ekkert bent til þess að gengi krónunnar mynti lækka jafn mikið á lánstímanum og raun bar vitni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK