Andstaða Dana við evru eykst

Andstaða Dana við upptöku evru hefur aukist milli mánaða og hefur aldrei verið meiri samkvæmt nýrri könnun, sem Danske Bank hefur látið gera. Er þetta einkum rakið til fjárhagserfiðleika Grikkja. 

Segir Danske Bank, að allt bendi til þess að Danir myndu hafna því að taka upp evru ef þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um slíka tillögu nú.

Alls sögðust 40,2% þátttakenda myndu líklega eða örugglega samþykkja upptöku evru í þjóðaratkvæðagreiðslu nú en 56,7% líklega eða örugglega hafna henni. Munurinn á fylkingunum er 16,5 prósentur en var 9,9 prósentur í samskonar könnun í mars.  Er þetta mesti munur sem mælst hefur í slíkum könnunum. 

Þá hefur munurinn milli þeirra sem segjast vera vissir í sinni sök einnig aukist. Samkvæmt könnuninni segjast 28,5% Dana myndu örugglega segja já í þjóðaratkvæðagreiðslu en 47,1% segjast örugglega myndu segja nei.  

Lars Barfoed, leiðtogi Íhaldsflokksins, annars stjórnarflokksins í Danmörku, segir við blaðið Politiken í dag, að ef flokkurinn muni taka þátt í nýju stjórnarsamstarfi að loknum þingkosningum í haust muni hann gera það að skilyrði að þjóðaratkvæðagreiðsla um upptöku evru fari fram á kjörtímabilinu. 

Danske Bank segist þó ekki telja að slík atkvæðagreiðsla fari fram á næstunni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK