Jobs hættir sem forstjóri Apple

Steve Jobs hefur sagt af sér sem forstjóri bandaríska tölvuframleiðandans Apple. Mun Tim Cook, sölustjóri Apple, taka við starfinu af Jobs, að því er kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. 

Engin ástæða var gefin upp fyrir þessu en Jobs, sem er 56 ára, fór í veikindaleyfi 17. janúar, að því að talið er vegna krabbameins.  Hann gekkst undir aðgerð vegna krabbameins í brisi árið 2004 og undir lifrarígræðslu árið 2009. Cook hefur gegnt starfi forstjóra i forföllum Jobs allt frá 2004.

Jobs hefur jafnframt verið kjörinn stjórnarformaður Apple. 

Steve Jobs er sonur Joanne Simpson og á egypskan föður, sem engin deili eru kunn á. Hann var ættleiddur fljótlega eftir fæðingu í febrúar 1955 af Paul og Clöru Jobs og uppalinn í Mountain View í Kaliforníu, þar sem nú heitir Silicon Valley.

Hann fékk snemma áhuga á tölvum og hóf 19 ára gamall störf hjá tölvuleikjaframleiðandanum Atari, ásamt vini sínum, Steve Wozniak. Þeir stofnuðu saman fyrirtæki og árið 1976 varð Apple til í bílskúrnum hjá foreldrum Jobs. Þeir settu Apple I tölvuna á markað og ári síðar leit Apple II dagsins ljós.

Wozniak yfirgaf Apple árið 1981 eftir að upp úr vináttu þeirra Jobs slitnaði. Jobs hætti síðan hjá Apple árið 1985 og fékkst í kjölfarið við ýmislegt, svo sem framleiðslu teiknimynda og einnig stofnaði hann tölvufyrirtækið NeXT. Apple keypti síðan NeXT árið 1996 og Jobs fylgdi með og tók að nýju við forstjórastarfinu.

Apple hafði þá lent í vandræðum og tapað miklu fé. En undir stjórn Jobs urðu alger umskipti í rekstrinum með nýjum vörum á borð við iMac tölvu, iPod spilara, iPhone síma og iPad spjaldtölvu. Apple hefur skilað methagnaði á hverjum ársfjórðungnum á fætur öðrum og er nú annað verðmætasta fyrirtækið á bandarískum hlutabréfamarkaði á eftir olíufélaginu Exxon.

„Óvenjuleg sýn og leiðtogahæfileikar Steves björguðu Apple og tryggðu því stöðu sem frumlegasta og verðmætasta tæknifyrirtækis heims," segir í yfirlýsingu stjórnar Apple í kvöld. 

„Stjórnin er þess fullviss, að Tim sé rétti maðurinn til að verða næsti forstjóri." 

Timothy D. Cook er fimmtugur að aldri, verkfræðingur að mennt og hefur starfað hjá Apple frá árinu 1998 en Jobs fékk hann þangað frá tölvuframleiðandanum Compaq.   

Cook er sagður ákafur líkamsræktarmaður og leggur stund á gönguferðir og hjólreiðar. Vinnudagur hans hefst klukkan 4:30 á morgnanna. 

Tim Cook og Steve Jobs á blaðamannafundi á síðasta ári.
Tim Cook og Steve Jobs á blaðamannafundi á síðasta ári. Reuters
Steve Jobs kynnir nýja útgáfu af iPad tölvu á ráðstefnu …
Steve Jobs kynnir nýja útgáfu af iPad tölvu á ráðstefnu nýlega. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK