Afkoma ríkisins betri en áætlun gerði ráð fyrir

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra mbl.is/Golli

Handbært fé frá rekstri ríkissjóðs var neikvætt um 54,4 milljarða króna á fyrstu átta mánuðum ársins en var neikvætt um 65,2 milljarða króna á sama tímabili 2010.

Tekjur drógust saman um 10,2 milljarða króna en á sama tíma drógust gjöldin saman um 4,2 milljarða króna milli ára.

Þetta er betri niðurstaða en gert var ráð fyrir í áætlunum þar sem gert var ráð fyrir að handbært fé frá rekstri yrði neikvætt um 59,4 milljarða króna.

Samdráttur í sölu eigna

Innheimtar tekjur ríkissjóðs námu tæpum 292 ma.kr. á fyrstu átta mánuðum ársins og drógust saman um 3,8% miðað við sama tímabil í fyrra. Mest munar um samdrátt í tekjum af sölu eigna en slíkar ráðstafanir skiluðu um 500 m.kr. á fyrstu átta mánuðum ársins samanborið við 19,5 ma.kr. á sama tíma í fyrra vegna svonefnds Avenssamkomulags.

Ef litið er framhjá tekjum af sölu eigna jókst innheimtan um 2,7% á milli ára. Tekjur ársins eru rúmum 4,7 ma.kr. eða 1,6% yfir áætlun fjárlaga sem má einkum rekja til hærri fjármagnstekjuskatts og tekjuskatts lögaðila en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Tekjuskattur einstaklinga jókst um 0,9%

Skatttekjur og tryggingagjöld jukust um 3,6% á fyrstu átta mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra og námu alls rúmum 272 ma.kr. sem er 3,2% yfir áætlun fjárlaga. Þar af jukust tekjur af tekjuskatti lögaðila um 22,5% og námu rúmum 9,9 ma.kr. og tekjur af fjármagnstekjuskatti um 7,0% og námu um 26,3 ma.kr.

Hér er m.a. um að ræða skatta af  fjármagnstekjum annars ársfjórðungs, sem voru á gjalddaga í júlí, en innheimta í þeim mánuði var fremur lítil og færðist því að einhverju leyti yfir á ágúst.

Tekjuskattur einstaklinga jókst um 0,9% á fyrstu átta mánuðum ársins og nam 58,5 ma.kr. sem er um 2 ma.kr. yfir tekjuáætlun fjárlaga. Ríflegur hluti endurgreiðslna í tengslum við álagningu á tekjur síðasta árs, sem áætlað hafði verið að yrðu að mestu bókfærðar í júlí, féll í til í ágúst. Endurgreiðslur skekkja jafnan niðurstöðu þessa tekjuliðar í þessum tveimur mánuðum.

Samanlögð skil launagreiðenda á bæði tekjuskatti og útsvari jukust um 10,7% á fyrstu átta mánuðum ársins. Á sama tíma hækkaði skatthlutfallið í staðgreiðslu um 0,09 prósentustig og því ljóst að aukningin stafar að mestu af hækkun tekjuskattsstofnsins að krónutölu.

Þá námu tekjur af tryggingagjöldum 43 ma.kr. á tímabilinu sem er um 8% aukning frá fyrra ári en nýlegir kjarasamningar hafa þar mikil áhrif. Eignarskattar námu rúmum 4 ma.kr. á tímabilinu og jukust um rúm 20% á milli ára sem má að mestu rekja til bókfærðra tekna af auðlegðarskatti upp á tæpan 1,1 ma.kr. í ágúst.

 Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK