Ekki tímabært að losa höftin

Hagfræðingurinn Paul Krugman flutti fyrirlestur á ráðstefnunni í Hörpu
Hagfræðingurinn Paul Krugman flutti fyrirlestur á ráðstefnunni í Hörpu

Ástandið hér er mun betra en ætla mætti en það er ekki tímabært að losa gjaldeyrishöftin þar sem hættan á gengishruni er of mikil. Þetta kom fram í máli hagfræðiprófessorsins Paul Krugman á ráðstefnu stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Hörpu í dag. Í upphafi máls síns sló Krugman þann varnagla að hann væri ekki sérfræðingur í málefnum Íslands. Hann sló á létta strengi og sagði ástæðuna fyrir því að hann væri að fylgjast með Íslandi ekki endilega þá að hann væri svo heillaður af landinu, heldur væru aðstæður hér hentugar til samanburðar.

„Ekkert land átti að geta verið í verri stöðu en Ísland en sú varð ekki raunin. Hvað gerðist þá?“ spyr Krugman sem segir að frasinn „ekki eins slæmt og þú bjóst við“  sé kannski ekki það sem stjórnvöld vilji leggja upp með í herferð. Reyndin sé þó sú að staða Íslands sé mun betri en hjá samanburðarlöndum og nefnir þar til minna atvinnuleysi.

Þegar komi að landsframleiðslu sé staðan ef til vill ekki eins góð en það þurfi líka að gæta að því hvaða þættir hafi áhrif til hækkunar hennar og skoða bakgrunninn. Þá hafi það líka sýnt sig að það hafi ekki reynst rétt að ekki væri hægt að leyfa bönkum að falla.

Krugman sagði að í raun væri verið að tala um tvær stefnur sem feli í sér ákveðnar þverstæður. Í fyrsta lagi að reyna að ná jafnvægi á gengið með því að lækka laun og ná niður framleiðslukostnaði án þess að fella gengið en hann lýsti miklum efasemdum með þá stefnu. Svo væri það spurningin með evruna.

Óraunhæfar leiðir

Krugman furðaði sig á fullyrðingu margra Íslendinga um að íslenska hagkerfið byggi yfir nægjanlegum sveigjanleika til þess að yfirstíga erfið efnahagsáföll án þess að gengi gjaldmiðilsins lækki. Það er að segja að hagkerfið hefði getað komist út úr bankahruninu 2008 með annaðhvort fastgengisstefnu eða með aðild að myntbandalagi en það hefði þýtt að endureisn samkeppnishæfni útflutningsiðnaðarins hefði komið til eingöngu með lækkun launa og annars innlends framleiðslukostnaðar.

Þá mætti spyrja af hverju gengi ekki betur hér eins og til dæmis í Argentínu. Þar kæmu til þrír þættir: Fiskur, ál og skuldir. Þegar kæmi að útflutningsaukningu yrði að hafa það í huga að fiskur og ál eru háð framleiðslutakmörkunum. Skuldir settu einnig stórt strik í reikninginn.

Svo eru það gjaldeyrishöftin. „Mér finnst það stórmerkilegt að fólk talið hér um að óhætt sé að losa gjaldeyrishöftin. Litið til skuldastöðunnar þarftu að vera algjörlega viss til að eiga ekki á hættu að krónan hrynji“ sagði Krugman og benti á að það virkaði hálfskrítið að vilja taka upp evruna og halda svo að hún bjargaði málum.

Hér er hægt að fylgjast með ráðstefnunni í beinni útsendingu á vef Seðlabankans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK