Samkomulagið svar við hótun S&P

Utanríkisráðherra Frakklands, Alain Juppe
Utanríkisráðherra Frakklands, Alain Juppe Reuters

Samkomulag þeirra Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta er svar Evrópusambandsins við viðvörun matsfyrirtækisins Standard & Poor's um að fyrirtækið muni jafnvel lækka lánshæfiseinkunnir flestra evruríkjanna, segir utanríkisráðherra Frakklands, Alain Juppe.

Samkomulag þeirra snýst um að aðildarríki evrusvæðisins innleiði ákvæði í stjórnarskrár sem kveði á um hámarkshalla í ríkisrekstri sem nemur 3% af landsframleiðslu. Viðkomandi stjórnvöld sem virða ekki reglur um halla á ríkisfjárlögum verði sjálfkrafa beitt refsiaðgerðum.

Juppe segir að S&P hafi undirbúið og gengið frá ákvörðun sinni áður en upplýst var um samkomulagið. Í viðtali við RTL-útvarpsstöðina segir Juppe að ákvörðun S&P sé hótun en ekki ákvörðun. En hana verði að taka alvarlega. Unnið sé að því að minnka fjárlagahalla Frakklands og staðið verði við þá áætlun.

Hann segist sannfærður um að samkomulag Merkel og Sarkozy, sem verður rætt á fundi leiðtoga ESB-ríkjanna í Brussel á fimmtudag og föstudag, sé nákvæmlega það sem S&P telur að á vanti í ríkisfjármálum evruríkjanna. Nauðsynlegt sé að herða þær reglur sem gilda um ríkisfjármál einstakra ríkja innan ESB.

Juppe segir hins vegar að tímasetning tilkynningar S&P hafi komið sér á óvart. „Við vissum hvað var í vændum í gærmorgun og Standard & Poor's vissi ekki hvað myndi gerast yfir daginn, og á ég þar við samkomulag Frakka og Þjóðverja,“ segir Juppe. Hann ítrekaði í viðtalinu að yfirlýsing Standard & Poor's væri ekki lækkun á lánshæfiseinkunn ríkjanna heldur hótun um að það kynni að lækka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK