Bygma kaupir Húsasmiðjuna

Húsasmiðjan
Húsasmiðjan mbl.is/Ómar

Framtakssjóður Íslands hefur selt rekstur og eignir Húsasmiðjunnar til dönsku byggingavörukeðjunnar Bygma Gruppen A/S (Bygma). Söluferli Húsasmiðjunnar hefur staðið frá því í ágúst síðastliðnum og átti Bygma hæsta tilboð í fyrirtækið.

Þetta kemur  fram í fréttatilkynningu frá Framtakssjóði Íslands. Þar segir að heildarvirði samningsins nemi um 3,3 milljörðum króna og felur hann í sér að Bygma tekur yfir vaxtaberandi skuldir Húsasmiðjunnar að upphæð um 2,5 milljarðar króna og greiðir að auki 800 milljónir króna í reiðufé.

Bygma tekur einnig yfir aðrar skuldir Húsasmiðjunnar, alla ráðningarsamninga við starfsfólk, leigusamninga og aðrar rekstrartengdar skuldbindingar. Engar skuldir eru afskrifaðar í tengslum við söluna og verður starfsemin áfram undir merkjum Húsasmiðjunnar eftir að nýr eigandi tekur við fyrirtækinu 1. janúar 2012.

Bygma Gruppen A/S er danskt einkafyrirtæki sem selur og dreifir timbri og byggingavörum. Bygma starfrækir yfir 65 verslanir í Danmörku, Svíþjóð og Færeyjum með um það bil 1600 starfsmönnum. Vörusala Bygma á árinu 2011 nemur um €630 milljónum, sem nemur um 100 milljörðum íslenskra króna. Bygma var stofnað fyrir tæpum 60 árum og hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi.

Húsasmiðjan er eitt af stærstu þjónustu- og verslunarfyrirtækjum í byggingarvörum á Íslandi. Fyrirtækið er nú með um 450 starfsmenn og rekur 16 verslanir um allt land undir eigin merki og blómaverslanir undir merki Blómavals. Að auki rekur fyrirtækið heildsölurnar Ískraft og HG. Guðjónsson.

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans veitti Framtakssjóði Íslands ráðgjöf við viðskiptin og mun afrakstur sölunnar renna til eigenda Framtakssjóðsins í samræmi við reglur og samþykktir sjóðsins.

Ekki er á þessari stundu ljóst hversu há sú upphæð verður þar sem seljandi mun halda eftir ábyrgð á tveimur mögulegum skuldbindingum gagnvart íslenskum yfirvöldum, sem urðu til áður en Framtakssjóður eignaðist fyrirtækið. Annars vegar er um að ræða mögulega sekt vegna meintra samkeppnislagabrota sem Samkeppniseftirlitið hefur til meðferðar frá fyrri tíð. Hins vegar er um að ræða mögulegra endurálagningu opinberra gjalda vegna meintra skattalagabrota sem rekja má til samruna eignarhaldsfélaga við Húsasmiðjuna á árunum 2003-2006.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK