Afnám hafta brýnasta verkefnið

mbl.is

Afnám gjaldeyrishafta er brýnasta viðfangsefnið í atvinnumálum Íslendinga segja Samtök atvinnulífsins sem hafa sett fram áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna sem þau segja mjög skaðleg fyrir fólk og fyrirtæki.

Gjaldeyrishöftunum er ætlað að verja gengi krónunnar þar sem óttast er að erlendir eigendur peningalegra eigna í íslenskum krónum vilji skipta þeim í stórum stíl á stuttum tíma fyrir erlenda gjaldmiðla. 

Hafa þveröfug áhrif

„Gjaldeyrishöftin hafa í raun þveröfug áhrif þegar til lengri tíma er litið. Þau skapa stöðugan þrýsting til lækkunar á gengi krónunnar vegna þeirrar takmörkunar á framboði gjaldeyris sem þau valda. Þannig skipta markaðsaðilar helst ekki erlendum gjaldmiðlum fyrir krónur nema til að greiða innlendan kostnað og afborganir af lánum eða til að kaupa eignir. 

Afrakstur íslenskra fyrirtækja í viðskiptum við erlenda aðila safnast smám saman fyrir í eignum í erlendum gjaldmiðlum og almenningur leitar allra leiða til að kaupa og safna gjaldeyri vegna ótta við gengisfall krónunnar. Þá fjölgar stöðugt krónueignum erlendra aðila vegna ávöxtunar á innlendum fjármagnsmarkaði,“ segir á vef SA.

Skapa vantraust

Aðgangur íslenskra fyrirtækja að erlendu fjármagni er takmarkaður, segja Samtök atvinnulífsins. 

„Aðilar sem koma með fjármagn inn í landið eftir undanþáguleiðum Seðlabankans fá ákveðið forskot umfram innlenda aðila í samkeppni á markaðnum. Framkvæmd gjaldeyrishaftanna þróast óhjákvæmilega í handstýrt kerfi mismununar og geðþóttaákvarðana. 

Höftin skapa vantraust á íslensku atvinnulífi og stjórnvöldum, fæla erlenda fjárfesta frá landinu og takmarka vöxt innlendra fyrirtækja, m.a. á erlendum mörkuðum. Mesta tjón haftanna er því flestum hulið því það felst í fjárfestingum og vexti sem fara forgörðum. Þá veldur stöðug gengislækkun af völdum haftanna og meðfylgjandi verðbólga og launahækkanir því að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja verður afleit."

Meðal mótvægisaðgerða sem Samtök atvinnulífsins leggja til eru:

Innlendum eigendum eigna í erlendum gjaldmiðlum verði heimilað að kaupa krónueignir erlendra aðila.  Þessi viðskipti verði skráð sérstaklega af Seðlabanka Íslands og skattlögð með 2% - 5% veltuskatti. Gjaldeyrisviðskiptin fari fram á skráðu gengi Seðlabankans en eignirnar skipti um hendur með afslætti sem nemur t.d. hlutfallslegum mun á skráðu gengi og aflandsgengi. (Seðlabankinn þarf að veita undanþágu frá 13. gr. laga 87/1992 um gjaldeyrismál, sbr. 7. gr. laganna, til að heimila slík viðskipti).

Ríkissjóður gefi út skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum til 10 - 20 ára sem verði skráð á skuldabréfamörkuðum og bjóði þau erlendum eigendum ríkisskuldabréfa í krónum. Miðað er við að íslensku ríkisskuldabréfin fáist með fyrrgreindum afslætti og 2% - 5% veltuskattur verði lagður á viðskiptin.

Þrotabúin selji 75% af hlut sínum í bönkunum

Bönkunum verði heimilt að breyta innstæðum erlendra aðila í bundnar innstæður í erlendum gjaldmiðlum til 5 - 10 ára eða í skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum til sambærilegs tíma með tilteknum afslætti af krónuinnstæðunum.  Þessi viðskipti verði skattlögð með 2% - 5% veltuskatti.

 Leitað verði samninga við slitastjórnir um að bú gömlu bankanna selji 75% af eignarhlutum sínum í nýju bönkunum gegn greiðslu í erlendum gjaldmiðlum. Samningar verði gerðir milli stjórnvalda og lífeyrissjóða um að þeir fari sér hægt fyrst um sinn í fjárfestingum erlendis eða þar til traust jafnvægi hefur náðst á gjaldeyrismarkaði.

 Eftir að frjáls gjaldeyrisviðskipti verða heimil á nýjan leik verði lagður á tímabundinn útgönguskattur á gjaldeyriskaup erlendra eigenda ríkistryggðra skuldabréfa og innstæðna sem nemi a.m.k. þeim hlutfallslega mun sem verður á skráðu gengi krónunnar og aflandsgengi hennar, til þess að tempra útflæði gjaldeyris. Hversu hár skatturinn þarf að vera og hve sá tími verður langur fer eftir því hversu vel tekst til að ná jafnvægi á gjaldeyrismarkaði. Ef vel tekst til er skatturinn óþarfur með öllu.

Sérstakar vaxtabætur fyrir skuldsett heimili

Skuldug heimili verði varin gegn hækkun á greiðslum verðbóta af verðtryggðum lánum með sérstökum vaxtabótum sem fjármagnaðar verða með fyrrgreindum veltuskatti. („Sérstakar vaxtabætur vegna verðbólguskots af völdum tímabundinnar gengislækkunar í tengslum við afnám gjaldeyrishafta"). Vaxtabæturnar verði ákveðnar á grundvelli tekna og nettóeigna með svipuðum hætti og í vaxtabótakerfinu. Þau heimili sem verst eru sett ættu að geta fengið fullt framlag vegna hækkunar á greiðslum verðbóta og vaxta umfram tiltekna viðmiðun sem byggir á þeirri verðbólgu sem hvort eð er má gera ráð fyrir. Aðgerðin yrði í fyrstu umferð byggð á skattframtölum síðastliðins árs og lokauppgjör færi fram grundvelli skattframtals líðandi árs í ljósi hækkunar verðlags og launa.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK