Skoða gagnaver á Höfn og Blönduósi

Úr gagnaveri Advania Thor Data Center í Hafnarfirði
Úr gagnaveri Advania Thor Data Center í Hafnarfirði

Hugmyndir hafa verið um byggingu gagnavera víða um land. Svo virðist sem þessi áform hafi dregist af ýmsum orsökum. Hinsvegar eru jákvæðir hlutir að gerast á þessu sviði þessa dagana eins og opnun gagnavera Thor og Verne Holding sýna.  Að sögn Eymundar Sigurðssonar, rafmagnsverkfræðings hjá Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar, sem unnið hefur að undirbúningi gagnavera, meðal annars á Blönduósi og á Höfn í Hornafirði hafa sést jákvæð teikn á lofti eftir frekar dauft tímabil undanfarin eitt til tvö ár. Hugsanlegt er að þau gagnaver sem þegar hafa hafið rekstur séu farin að vekja jákvæða athygli.

Síðastliðin þrjú og hálft ár hefur félagið Glacier Guard Datacenter (GGD) unnið að því að undirbúa byggingu gagnavers á Höfn í Hornafirði. Markhópur fyrirtækisins er evrópsk gagnaver sem hafa hug á því að auka þjónustu sína og bjóða upp á samkeppnishæfan valkost sem notar einungis „græna“  orku.

Landfræðilega heppileg staðsetning

Að sögn Eymundar er Höfn að mörgu leyti landfræðilega heppileg staðsetning. Meðal annars vegna þess að Höfn liggur um það bil miðja vegu á milli DANICE- og FARICE-sæstrengjanna og því er góð og örugg gagnatenging sem og varaleið, sem er mikilvægt atriði í þessu eins og gefur að skilja. Viljayfirlýsing hefur verið gerð á milli FARICE og Glacier Guard varðandi gagnaflutning til London og Kaupmannahafnar.

Eymundur sagði að ekki skipti síður máli að svæðið er algjörlega utan hefðbundinna eldgosa- og jarðskjálftasvæða. „Þá er milt og stöðugt veður á svæðinu sem nýta má til kælingar. Einnig eru góðir innviðir í bæjarfélaginu. Á Höfn er þekkingarsetrið Nýheimar sem hefur meðal annars þann tilgang að ýta undir nýsköpun og frumkvöðlastarf. Eitt af því sem er starfrækt innan Nýheima er rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands. Allt getur þetta stutt við starfsemi gagnavers,“  sagði Eymundur.

Gerð hefur verið viljayfirlýsing við Orkusöluna fyrir allt að 5 MW. Landsnet hefur staðfest að Glacier Guard Datacenter geti flutt allt að 20 MW inn á svæðið um tengivirkið á Hólum í Nesjum. Flutningur á raforku fyrir gagnaver af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir ætti því ekki að vera vandamál á þessu stigi, segir Eymundur.

Með mikla reynslu

Að Glacier Guard Datacenter standa aðilar sem hafa mikla reynslu af gagnaverum. Meðal annars eru innan félagsins tölvunarfræðingur, aðili sem rekur hýsingu (þó að sjálfsögðu minna en það sem hér er í bígerð), rafmagnsverkfræðingar og aðilar sem hafa góð tengsl við tölvumarkaðinn í Evrópu.

Eymundur sagði að auk þessa stæði sveitarfélagið þétt að baki fyrirtækisins og er samningur í gildi milli fyrirtækisins og sveitarfélagsins sem tryggir félaginu 50.000 fermetra lóð á heppilegum stað og aðstoð við uppbyggingu á hluta verkefnisins.

„GGD hefur valið að halda lágum prófíl á meðan verið er að vinna í þessu en ég tel fyrirtækið vera nokkuð vel í stakk búið til þess að takast á við verkið, bæði hvað varðar þekkingu, tengsl við markaðinn sem og hvernig því hefur miðað fram að þessu. Það sem eftir stendur er að fara til markaðarins og kynna GGD af meira afli og Ísland sem valkost fyrir ódýr og örugg gagnaver,“ sagði Eymundur.

Gera má ráð fyrir 50-70 manns í vinnu á byggingartíma fyrsta áfanga sem gæti orðið 9-12 mánuðir. Þumalfingursreglan er sú að í gagnaverum skapa hvert MW um það bil 2 störf þannig að áhrifin á svæðið gætu orðið umtalsverð þegar tímar líða fram. Gert er ráð fyrir að byggja gagnaverið í 5000 fermetra einingum þar sem u.þ.b. helmingurinn er nýttur undir tölvukerfi versins.

Hugsanlega minna gagnaver á Blönduósi

Svipaða sögu er að segja um hugmyndir um gagnaver á Blönduósi en þar eru aðstæður þannig að hægt væri að tryggja raforku fyrir mun stærra gagnaver og auk þess gerir nálægðin við Blönduvirkjun það mögulegt að útfæra gagnaverið þannig að ekki þurfi varaafl við húsvegg með tilheyrandi kostnaði og mengun.  Blönduós er eins og Hornafjörðurinn utan eldgosa- og jarðskjálftasvæða eins og við þekkjum þau, en gagnatengingar þarf að bæta lítillega til að tryggja öruggan flutning að tengistöðvum sæstrengja.  Sveitarfélagið hefur unnið ötullega að verkefninu, tryggt lóð og öll skipulagsmál. Upphaflega fór það verkefni af stað í samstarfi við einn mjög stóran erlendan aðila sem síðan hætti við eða frestaði áformum sínum um mjög stórt gagnaver.  Nýlega hafa svo öflugir fjárfestar sýnt þessum áformum á Blönduósi áhuga, þó nú sé verið að skoða talsvert minna gagnver en í upphafi var áætlað.

Að sögn Eymundar binda þeir sem hafa verið að vinna að því að koma upp gagnaverum á Íslandi undanfarin ár miklar vonir við að gagnaver Thor og Verne Holding, sem þegar eru komin í rekstur, verði þeir brimbrjótar sem þarf til að koma þessari atvinnugrein af stað hér á landi og sanni að landið sé heppilegt fyrir svona starfsemi (proof of concept). „Því er kannski við að bæta að það kom fram á ráðstefnu um daginn að notkun á sæstrengjum hefur margfaldast undanfarið sem gæti bent til þess að gagnaverin sem þegar hafa hafið rekstur séu í réttri leið og nái góðri markaðshlutdeild,“  sagði Eymundur.

Eymundur Sigurðsson
Eymundur Sigurðsson mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK