Iceland Airwaves frumkvöðlanna

Bala Kamallakharan stendur fyrir Startup Iceland.
Bala Kamallakharan stendur fyrir Startup Iceland. mbl.is

Eftir nákvæmlega viku hefst frumkvöðlaráðstefna sem ber heitið Startup Iceland. Um er að ræða tveggja daga viðburð sem ætlað er að efla frumkvöðlahugsun og tengja saman fólk með áhuga á slíkum málefnum, bæði fjárfesta og frumkvöðla. Sá sem stendur fyrir þessu framtaki er Bala Kamallakharan, indverskur að ætterni, en hefur verið búsettur hér um nokkurt skeið. Við ræddum stuttlega við Bala um fyrirhugaða ráðstefnu.

Hver er tilgangur ráðstefnunnar?

„Tilgangurinn er að heiðra frumkvöðlahugsun og kveikja hugmyndir að nýjum fyrirtækjum og verkefnum. Í ljósi þeirrar eyðileggingar sem fjármálakreppan hefur valdið í flestum löndum teljum við að fjárfesting í nýjum nýsköpunarfyrirtækjum í framtíðinni sé besta leiðin til frambúðar til að komast út úr þeim vandamálum sem við erum núna í. Okkur langar til að skapa nokkurskonar Iceland Airwaves-viðburð fyrir frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki.“  

Þið bjóðið upp á marga áhugaverða fyrirlestra - hvað getur þú sagt um þá?

„Allir okkar fyrirlesarar leggja áherslu á að byggja upp sjálfbært vistkerfi sem hjálpar, styður og hvetur nýsköpun og frumkvöðlafyrirtæki. Við teljum að það að hafa heilbrigt vistkerfi sé mjög mikilvægt til að koma félagslegu og efnahagslegu skipulagi á í öllum samfélögum.“

Hvernig lítur út með þátttöku?

„Við höfum nú þegar yfir 100 manns sem hafa keypt miða eða skráð sig til þátttöku. Við teljum að við munum auðveldlega ná yfir 200 þátttakendum. Þessi þátttaka er mikilvæg vegna þess að við förum með allt þetta fólk til Keflavíkur og Reykjanesbæjar, þess landsvæðis sem hefur orðið hvað verst úti þegar kemur að atvinnuleysi og efnahagslegri niðursveiflu.“

Eru góð tækifæri fyrir frumkvöðla til að koma nýjum fyrirtækjum af stað á Íslandi?

„Það er fullt af tækifærum til að fjárfesta í nýjum fyrirtækjum á Íslandi, sérstaklega þeim sem leggja áherslu á hugbúnaði, farsíma og netið. Heimurinn hefur breyst, þessi fyrirtæki lögðu áður áherslu á mjög tæknilega hluti en nú er lögð áhersla á að leysa vandamál fyrir fyrirtæki, jafnvel fiskveiðifyrirtæki, orkufyrirtæki, fasteignafélög, verslun, lífræna tækni eða iðnaði. Það er jú hugbúnaður sem heldur öllum þessum fyrirtækjum gangandi í dag.“

Bala hefur búið hér á landi frá árinu 2006 þegar hann hóf störf hjá Glitni. Hann fer fyrir fjárfestingarsjóði sem fjölskylda hans og viðskiptafélagar hér á landi koma að. Sjóðurinn einbeitir sér að fjárfestingum í net- og tæknifyrirtækjum og hefur hann meðal annars unnið náið með stofnendum og stjórnendum hugbúnaðarfyrirtækisins Clöru að uppbyggingu fyrirtækisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK