Dollarinn kominn í 131 krónu

Reuters

Dollarinn er kominn í 131 krónu, en það hefur ekki gerst síðan vorið 2009. Ingólfur Bender, hagfræðingur hjá Íslandsbanka, segir sterka stöðu dollars að nokkru leyti skýrast af stöðu mála í Evrópu en gengi dollarans hefur verið að hækka talsvert gagnvart evrunni.

Ingólfur tekur fram að skýringin sé ekki sú að krónan hafi almennt verið að gefa eftir en krónan hefur undanfarið verið nokkuð stöðug gagnvart vegnu meðaltali helstu viðskiptamynta landsins.

Dollarinn kostaði lengst af í vetur 123-126 krónur. Hann hefur hins vegar hækkað um 4% í maí og virðist enn vera að hækka. Á sama tíma hefur evran lækkað um 3% og norrænu gjaldmiðlarnir hafa líka lækkað í verði gagnvart íslensku krónunni.

Ingólfur segir að sterkt gengi dollars skýrist annars vegar af stöðu mála í Bandaríkjunum og hins vegar af því sem hafi verið að gerast á evru-svæðinu. Markaðurinn telji t.d. talsverðar líkur á að Grikkir yfirgefi evruna sem markar gengisþróunina.

Ingólfur segir að gengi krónunnar hafi frekar styrkst frá því í lok mars þegar gjaldeyrishöftin voru hert og þar með stoppað upp í þann leka sem var að valda lækkun krónunnar í vetur. Árstíðarsveifla styðji einnig við gengi krónunnar nú. Ferðaþjónustan skili auknum gjaldeyristekjum yfir sumartímann.

Dollarinn er um 10% af erlendum vöru- og þjónustuviðskiptum landsins eða um 8% af innflutningi og 14% af útflutningi. Í innflutningi er ekki síst um hrávöru að ræða eins og olíu. Evran vegur hins vegar mun meira í vöru- og þjónustuviðskiptum Íslendinga eða um 41% og 52% ef danska krónan sé talin til evrunnar en gengi hennar er fast við evruna.

Höftin taka markaðsöflin úr sambandi

Sú spurning vaknar hversu mikið gengi krónunnar ráðist í reynd á markaði þegar gjaldeyrishöft eru í gangi.

„Ég er alveg sammála því sjónarmiði að gjaldeyrishöftin taka markaðsöflin úr sambandi. Tilgangur gjaldeyrishaftanna var að skapa stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og taka úr sambandi hluta af þeim markaðsöflum sem án hafta myndu líklegast lækka gengi krónunnar,“ segir Ingólfur. „Það sem stýrir þessu flæði í dag og þar með krónunni eru vöru- og þjónustuviðskipti og það litla sem er heimilt af fjármagnsflutningum. Jafnvægi í þessu flæði er það sem mótar gengi krónunnar.“

Ingólfur segir að í vetur hafi komið í ljós hversu erfitt það geti verið að viðhalda stöðugleikanum á gjaldeyrismarkaði þrátt fyrir gjaldeyrishöftin en þá veiktist krónan talsvert m.a. vegna þess svigrúms sem var innan haftanna til fjármagnsflutninga. Seðlabankinn hafi síðan í mars lokað fyrir þetta svigrúm. Þar með var staðfestur ótti margra að höftin eldast illa, þ.e. með tímanum fara þau að leka og viðbrögð stjórnvalda við því eru að herða höftin. Ingólfur segir að það sé rekin ákveðin fastgengisstefna í gegnum höftin og vegna þeirra séu afskaplega lítil viðskipti á gjaldeyrismarkaði.

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka.
Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK