Áhyggjur af bólumyndun hérlendis

Hætta er á bólumyndun á Íslandi ef ekki komi til öflugri fjárfestingarkostir. Hækkandi húsnæðisverð hefur ... stækka

Hætta er á bólumyndun á Íslandi ef ekki komi til öflugri fjárfestingarkostir. Hækkandi húsnæðisverð hefur áhrif. Ernir Eyjólfsson

Í frétt á Bloomberg fréttaveitunni er rætt við þau Öglu E. Hendriksdóttur, framkvæmdastjóra Íslandssjóða og Ásgeir Jónsson, hagfræðing hjá Gamma. Þau segja bæði að aukin áhætta sé á bólumyndun á Íslandi og lýsa áhyggjum af því, en mest er hún á húsnæðismarkaði og gjaldeyrishöftin spila þarna inn í.

Íslandssjóðir sérhæfa sig á sviði eignastýringar og annast rekstur og stýringu verðbréfasjóða, fjárfestingarsjóða og fagfjárfestasjóða. Agla segir fyrirtækið verða að fjárfesta á þessum bólumyndandi mörkuðum og að vegna gjaldeyrishaftanna sé hún ekki í stöðu til að fjárfesta erlendis, að einu innlendu fjárfestingarkostirnir sem bjóðist hafi orðið fyrir barðinu á verðbólgu og að fjölbreytni skorti verulega. Íslandssjóðir hafa yfir að ráða 119 milljörðum króna, eða 920 milljónum Bandaríkjadala, aðallega í skuldabréfum.

„Það skiptir miklu máli að fjöldi fjárfestingartækifæra aukist eins fljótt og verða má,“ sagði Agla og bætti við: „Við höfum verið að kalla á stærri fjárfestingartækifæri, bæði í skuldabréfum og hlutabréfum, til að draga úr hættunni á kúlumyndun.“

Í frétt á Bloomberg er saga gjaldeyrishaftanna rakin, bæði upphaf þeirra og þróun. Þar er því haldið fram að umkvartanir Öglu sýni þann veruleika sem ýmis fyrirtæki í þessum geira glími við vegna þeirra aðgerða sem farið var í til að verja efnahagskerfið falli. Fram kemur að um það bil 1 trilljón króna sé læst inni vegna gjaldeyrishaftanna, sem voru sett til til að styðja við íslensku krónuna haustið 2008.

Einnig segir að ólíklegt megi telja að hlustað verði á þessar umkvartanir þar sem íslensk stjórnvöld hafa gefið til kynna að höftin verði viðvarandi að minnsta kosti til ársins 2015.

Í samtali við Ásgeir Jónsson kemur fram að söluverð nýrra húseigna hafi hækkað mikið síðan 2009 þegar fasteignaverð náði botni og að hækkun á fasteignaverði sé stór áhættuvaldur í myndun fasteignabólu. „Það er stærri áhætta á að bóla myndist í hagkerfi sem er lokað af með gjaldeyrishöftum,“ sagði Ásgeir.

Agla E. Hendriksdóttir, framkvæmdastjóri Íslandssjóða.

Agla E. Hendriksdóttir, framkvæmdastjóri Íslandssjóða. mbl.is

Ásgeir Jónsson, hagfræðingur.

Ásgeir Jónsson, hagfræðingur.

  • Til baka
  • Blogga um frétt
  • Senda
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir