600 milljónir í fjárfestingasjóð

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Icelandair hefur tilkynnt um stofnun fjárfestingasjóðs sem mun fjárfesta í spennandi verkefnum í ferðaþjónustu sem auka upplifun ferðamannsins. Þetta kom fram í máli Björgólfs Jóhannssonar, forstjóra félagsins, á afmælisráðstefnu Icelandair í gær. Sagði Björgólfur að nauðsynlegt væri að auka dreifingu ferðamanna allt árið um kring til þess að mögulegt sé að fjölga ferðamönnum. Segist hann skora á aðra aðila sem koma að ferðamálum hérlendis til að taka þátt í verkefninu, enda sé þar um að ræða hag allra, en Icelandair mun leggja til 600 milljónir til að byrja með. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn taki til starfa fyrir næstkomandi áramót að sögn Björgólfs.

Aukið samstarf við háskólana

Í ræðu sinni ræddi hann nauðsyn þess að ferðaþjónustan tæki stór skref fram á við og nefndi í því samhengi að það ætti að vera keppnismál fyrir ferðaþjónustufyrirtækin að sækja hæfasta fólkið í háskólana til þess að tryggja framgang greinarinnar. Sagði hann að nýr samningur hefði nýlega verið undirritaður við Háskólann í Reykjavík um rannsóknir í tengslum við ferðaþjónustu, en áður hafði Icelandair samið við bæði Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.

Rannsóknir nauðsynlegar fyrir ferðaþjónustu

Lagði hann áherslu á nauðsyn þess að tengja fræðasamfélagið og atvinnulífið með auknum rannsóknum og sagði að horfa þyrfti á ferðaþjónustuna sem eina af megin atvinnugreinunum og eins og með allar aðrar atvinnugreinar þyrftu hún á rannsóknum að halda. Nefndi hann að engum dytti í hug að segja að rannsóknir á fiskveiðum og fiskistofnum væru ekki nauðsynlegar til framþróunar. Það sama ætti auðvitað að gilda um ferðaþjónustu.

Aðspurður um hugmyndir Ólafs Ragnars Grímssonar um 2 milljónir farþega á næstu áratugum segir Björgólfur að það sé fullkomlega raunhæft. „Það er bara spurning um dreifinguna og við náum ekki þessari aukningu bara yfir sumarið“ og sagði nauðsyn að auka ferðir utan mesta annatíma sem hann sagði Icelandair hafa lagt mikla áherslu á síðustu árum. Því til staðfestingar er gert ráð fyrir 15% vexti í fjölda ferðamanna á næsta ári, þar af að að fjölgunin verði um 20-25% á fyrstu 4 mánuðum ársins, sem eru utan hins hefðbundna sumarleyfistíma.

Ítrekar nauðsyn gjaldheimtu

Björgólfur ítrekaði einnig orð sín um að gjaldtaka á helstu ferðamannastaði væri forsenda þess að geta boðið góða þjónustu, en án þjónustu væri aukning ferðamanna mjög takmörkuð. Sagði hann nauðsynlegt að ná breiðri sátt um þetta og um leið vernda helstu náttúruperlur Íslands frá því að lenda í niðurníðslu vegna átroðnings sem mætti koma í veg fyrir með viðhaldi á stöðunum. Það þyrfti þó að passa uppá að gjaldheimtan væri ekki gjaldheimtunnar vegna og færi í uppbyggingu á ferðamannastöðunum sjálfum.

Vél Icelandair
Vél Icelandair mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK