Eðlilegt að ferðamenn greiði gjald

Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum var stofnaður 1973 með friðlýsingu jarðarinnar Svínadals …
Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum var stofnaður 1973 með friðlýsingu jarðarinnar Svínadals í Kelduhverfi, að viðbættri landspildu á Ásheiði. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar Nordic Visitor, telur eðlilegt að taka gjald fyrir aðgang að náttúru Íslands. Þetta kemur fram í riti sem Samtök atvinnulífsins gáfu út í dag, Fleiri störf - betri störf.

„Óhindraður aðgangur ferðamanna að hálendinu stendur ferðaþjónustunni fyrir þrifum. Ástæða er til að ýta undir að almennir ferðamenn skilji meira eftir sig,“ segir Ásberg í ritinu.

Segir ástandið við Jökulsárgljúfur hroðalegt

„Það er eðlilegt að rukka fyrir notkun á landinu. Það er ekki eðlilegt að erlendar ferðaskrifstofur sendi ferðamenn hingað í trukkum og rútum, á erlendum númeraplötum, með erlenda bílstjóra og leiðsögumenn, og þurfi ekki að greiða fyrir neina notkun.

Stór hluti ferðamanna sem kemur til landsins gistir í tjöldum og skilur lítið eftir sig. Taka þarf upp gjald fyrir þessa ferðamennsku og það á einnig við um erlenda gönguhópa á hálendinu. Þarna á að byrja með fjöldatakmarkanir og gjaldtöku,“ segir Ásberg en hann telur að hóflegt gjald gæti myndað sjóð til að halda við vinsælum ferðamannastöðum.

„Ástandið við Jökulsárgljúfur er hroðalegt og ekki boðlegt. Margir eru ragir við að byggja upp aðstöðu á vinsælum ferðamannastöðum og telja það náttúruspjöll. Ég er því ósammála, það á að byggja upp aðstöðu með fallegum byggingum sem falla vel að landslaginu og rukka fyrir notkunina. Við erum orðin of sein að snúa við fjöldaþróuninni, eins og í Landmannalaugum, við Jökulsárlón og Dettifoss,“ segir Ásberg í riti SA.

Ásberg og félagi hans stofnuðu Nordic Visitor árið 2002. Þeir ráku fyrstu einkareknu ferðamannamiðstöðina í samkeppni við upplýsingamiðstöð ferðamanna á vegum Reykjavíkurborgar.

Tveimur árum síðar opnaði fyrirtækið söluvef á netinu þar sem erlendir ferðamenn gátu í fyrsta skipti fengið allt verð fyrir pakkaferðir uppgefið og bókað rafrænt ferðir hingað.

Árið 2006 hófst starfsemi í Svíþjóð og Noregi og þegar kom fram á 2009 seldi fyrirtækið ferðir til allra Norðurlanda.

Gáfust upp í Noregi

Nordic Visitor er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins með um 45 manns í fastri vinnu. Nordic Visitor er í samkeppni við erlend ferðaþjónustufyrirtæki, einkum í Bretlandi og Bandaríkjunum.

„Við vorum með starfsemi í Noregi þar til í lok árs 2011. Þá lokuðum við og fluttum starfsemina heim vegna bjagaðrar samkeppnisstöðu.

Í Noregi er lagður virðisaukaskattur á þjónustu ferðaskrifstofa, en hér á landi og í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðast hvar er ferðaþjónustan í núll-þrepi virðisaukaskatts. Því eru svo til engar ferðaskrifstofur starfandi í Noregi sem selja ferðir til Noregs. Flestallar ferðir til Noregs eru seldar annars staðar. Þar með verða störfin til í öðrum löndum og hagnaðurinn skilar sér ekki að fullu í því landi sem ferðin er farin. Í Svíþjóð er þetta ekki mikið betra, en þar er lagður á svokallaður ferðaþjónustuskattur sem er um 2% af veltu,“ segir Ásberg og bætir við að öll velta fyrirtækisins fari í gegnum starfsemi fyrirtækisins á Íslandi og hagnaðurinn verði eftir hér.

„Ég vona að yfirvöld hér hafi vit á að fylgja ekki fordæmi Svía og Norðmanna og skattleggja ferðaskrifstofur, á við okkur, úr landi,“ segir Ásberg í viðtali í nýju riti Samtaka atvinnulífsins um atvinnumál.

Ásberg Jónsson
Ásberg Jónsson mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK