Ríkishótel á Landspítalanum

Ásdís Halla Bragadóttir
Ásdís Halla Bragadóttir mbl.is/Golli

Ásdís Halla Bragadóttir, eigandi Sinnum, fyrirtækis sem sinnir fólki, segir að það sem geri það að rekstur fyrirtækisins gangi upp sé að gífurlegum aga sé beitt í rekstrinum. Þetta þýði að hið opinbera sér hag sinn í að kaupa þjónustu frá Sinnum. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Ásdísar Höllu á fundi Samtaka atvinnulífsins um atvinnulífið og möguleikann á nýjum störfum á Íslandi.

Sinnum hefur frá stofnun ráðið einn eða fleiri starfsmenn í hverjum mánuði og nú eru starfsmennirnir orðnir 78 talsins. Ástæðan er einföld, markaðurinn er vaxandi og þeirra leið sé að sinna hlutunum þegar þeir koma upp.

Skulda ekki krónu og hafa aldrei tekið lán

Að sögn Ásdísar Höllu skuldar fyrirtækið ekki krónu og hefur aldrei tekið lán. Það sé í raun ánægjuefni að greiða starfsfólki laun og með því haft áhrif á afkomu 78 fjölskyldna.

Hún viðurkennir að stundum setji hins vegar að henni ugg þegar horft sé til þess að álögur hafi aukist á fyrirtæki og ríkisafskipti séu að aukast.

Ásdís Halla tók Landspítalann sem dæmi og byggingu nýs spítala. Hún segir mjög þarft að byggja við spítalann en hún undrast það að byrja eigi á að byggja ríkishótel. Hvers vegna þurfi að gera það skilji hún hreinlega ekki þar sem sjúkrahótel eru rekin víða af einkaaðilum. Með þessu hafi Landspítalinn fengið afskaplega hagkvæmt úrræði fyrir sjúklinga.

Nær að eyða myglu en að fara í samkeppni við einkafyrirtæki

Hún segist ekki botna í forgangsröðun sem þessari og það væri nær að nota þá tvo milljarða sem fara í byggingu ríkishótelsins í að vinna til að mynda bug á myglunni sem er á spítalanum.

Sinnum hóf starfsemi fyrri hluta árs 2008 eftir ítarlegan undirbúning og greiningu á aukinni eftirspurn eftir velferðarþjónustu á Íslandi, að því er segir í nýju riti Samtaka atvinnulífsins, Fleiri störf - Betri störf. Ásdís Halla á fyrirtækið ásamt Ástu Þórarinsdóttur, hagfræðingi.

Í upphafi var boðið upp á þjónustu við þá sem þurfa aðstoð til að geta búið lengur heima. Starfsemi fyrirtækisins jókst mikið við opnun sjúkrahótels í Ármúla í mars 2011 þar sem Hótel Ísland var áður. Nýjasti kaflinn í sögu fyrirtækisins er opnun dvalarheimilisins Klaustursins. Hjá Sinnum starfa nú um 78 manns og útlit fyrir frekari fjölgun starfsmanna enda þjóðin að eldast.

Fyrirtækið starfar í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og veitir fólki á rúmlega 200 heimilum þjónustu en þeim fjölgar í hverjum mánuði. Margir eru í fullu starfi hjá Sinnum en þar að auki eru ýmsir í hlutastarfi og algengur vinnutími hlutastarfsmanna er 3-4 tímar á dag, oft á kvöldin og um helgar, og fólk stundar gjarnan þessi störf meðfram annarri vinnu.

Sinnum rekur sjúkrahótel í Ármúla en fyrirtækið fékk verkefnið eftir útboð. Samningur var gerður til tveggja ára sem unnt er að framlengja í eitt ár í senn. Sinnum sér um rekstur hótelsins, m.a. matargerð og þrif, en Landspítalinn sér um hjúkrunarþjónustuna.

Sinnum opnaði þann 1. nóvember síðastliðinn heimili fyrir aldraða í Klaustrinu en það er glæsilegt húsnæði í Garðabæ í eigu kaþólsku kirkjunnar sem hafði staðið autt í eitt ár. Húsið er mjög stórt, með 16 stórum 25 fermetra herbergjum. Í Klaustrinu verður boðið bæði upp á sjúkra- og öldrunarþjónustu.

Gestir fundarins fylgdust áhugasamir með þeim erindum sem flutt voru …
Gestir fundarins fylgdust áhugasamir með þeim erindum sem flutt voru um íslenskt atvinnulíf. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK