Tvöfalda þarf útflutningsframleiðsluna

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins GVA

Á næstu fimmtán árum þarf að tvöfalda verðmæti útflutningsframleiðslunnar. Það er tröllaukið markmið, en gerlegt. Ólíklegt er að verðmætaaukning í sjávarútvegi og orkumálum geti staðið undir því og þá er það ný atvinnustarfsemi sem þarf að standa á bak við aukninguna. Þetta segir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, á ársþingi Samtaka atvinnulífsins í dag.

Í ræðu sinni nefndi hann tvö viðfangsefni sem hann telur nauðsynlegt að hafa í huga við þetta verkefni. Í fyrsta lagi sagði hann krónuna vera þránd í götu þeirra sem ætla að skapa ný verðmæti fyrir búskap þjóðarinnar. Í annan stað þyrfti sátt að nást um sjávarútvegsstefnuna, sem Þorsteinn segir að þurfi að fá að byggja á markaðsforsendum, en að sama skapi sætta sig við að geta ekki nýtt krónuna til sveiflujöfnunar fyrir greinina.

Krónan eins og tommustokkur sem breytist

Líkti Þorsteinn gjaldmiðli við tommustokk, en þegar ríkisstjórnir hefðu nýtt fullveldisrétt sinn til að breyta lengd hans jafnoft og gengi krónunnar væru fáir eftir í stétt byggingameistara. Sagði hann réttast að horfa til evrópsks myntsamstarfs í þessu samhengi.

Þegar hann ræddi um sjávarútveginn sagði hann nauðsynlegt að til gagnkvæms skilnings kæmi. „Það er því réttlát krafa að biðja útveginn að sýna skilning á þessum aðstæðum. Á móti á hann réttláta kröfu á því að þjóðfélagið viðurkenni að hann getur ekki jafnað sveiflur upp á eigin spýtur nema sjávarútvegsstefnan byggist á markaðslausnum,“ sagði Þorsteinn

Í framhaldi af gjaldeyrishugmyndunum sagði Þorsteinn að farsælast væri fyrir fólkið og fyrirtækin að sá flokkur sem hann hefur starfað fyrir, Sjálfstæðisflokkurinn, tæki þátt í alþjóðlegu samstarfi um að fylgja ríkisfjármálastefnu sinni  fremur en að semja á fjögurra ára fresti um afslátt frá þeirri stefnu við aðra flokka í landinu.

„Spurningin um aðild að evrópska myntbandalaginu og Evrópusambandinu snýst um það hvort við viljum  kyrrstöðu eða hvort við viljum auka frelsi fólksins, auka frelsi þeirra sem skapa verðmætin“ sagði Þorsteinn, en hann taldi hlutverk Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands í þessu sambandi mikið og að þau gætu unnið utan stjórnmálanna að þessu markmiði. „Þau þurfa að taka að sér að segja þjóðinni satt um raunverulega stöðu þjóðarbúsins. Þau þurfa að ná saman um hvernig leysa á meginmálin úr bóndabeygju stjórnmálanna,“ sagði Þorsteinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK