Möguleikar tæknifyrirtækja á Íslandi

Margt er um manninn á Iðnþinginu sem haldið er á …
Margt er um manninn á Iðnþinginu sem haldið er á Hótel Nordica. mbl.is/Ómar

Ísland er í góðri aðstöðu til að skapa sér kjörlendi nýsköpunar og tækniframfara á netinu á komandi árum. Þetta segir Brad Burnham, einn af eigendum fjárfestingarfyrirtækisins Union Square Ventures, sem meðal annars hefur fjárfest í Twitter, Tumblr og Foursquare. 

Burnham segir að á síðustu árum hafi fjárfestar fært sig að miklu leyti úr því að fjárfesta í grunnstoðum netsins í að fjárfesta í efsta laginu, fyrirtækjum sem bjóða upp á þjónustu á netinu sjálfu, eins og fyrrnefnd fyrirtæki sem Union Square Ventures hefur fjárfest í.

Hann segir að miklir möguleikar búi í þjónustu sem tengi fólk saman, svo sem samskiptamiðlum. Erlendis hafi þó orðið smá bakslag á þeim vettvangi hvað varðar lagakerfið og viðurkenningu á sérstöðu þessara fyrirtækja. 

Nefnir hann sem dæmi að með kennsluvettvanginum Mooc, sem sé byggður upp af kennurum og nemendum í virtum háskólum eins og Stanford, hafi komið upp vandamál varðandi hvort starfsemin sé lögleg eða ekki. Þannig gefi kennarar og leiðbeinendur vinnu sína og setji kennsluefni eða fyrirlestra inn á samfélagsmiðilinn.

Nýlega hafi þetta lent milli tannanna á stjórnmálamönnum í Minnesota-ríki, vegna þess að þar voru lög fyrir sem bönnuðu að kennsla væri veitt af öðrum en viðurkenndum stofnunum. Þannig hafi ókeypis fræðsla verið gerð ólögleg, jafnvel þótt tilgangurinn hafi alltaf verið góður.

Annað dæmi sem hann nefndi voru vangaveltur varðandi lánastarfsemi og fjármögnun verkefna eins og Lending club og Kickstarter, þar sem einstaklingar geta fengið fjármagn beint frá öðrum aðilum án milligöngu banka.

Hann segir að þarna geti Ísland séð tækifæri til að taka forystu og vera í fararbroddi til að veita frelsi fyrir samfélagsmiðla og tengslanet til að starfa án hamla. Segir hann að ekki þurfi að fella niður reglur til að leyfa þetta, en að stjórnvöld viðurkenni þessi fyrirtæki sem eitthvað sem eigi rétt á sér í þeirri mynd sem þau eru, án þess að þurfa að beygja sig undir sérsniðnar reglur sem voru gerðar fyrir fyrirtæki sem ekki horfi til sama vettvangs.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK