Athugasemd frá seðlabankastjóra

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri mbl.is/Hörður Ægisson

Vegna fréttar í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins um fjármagnshöft og krónueignir barst eftirfarandi athugsemd frá Má Guðmundssyni seðlabankastjóra sem er birt í Morgunblaðinu og á mbl.is.

„Í Morgunblaðinu í gær [á fimmtudag] var birt forsíðufrétt undir fyrirsögninni - „Væntir 75% niðurskrifta“. Að hluta til byggðist fréttin á ummælum sem ég átti að hafa látið falla í ræðu sem ég hélt á fjárfestingardeginum í Háskólanum í Reykjavík 8. mars síðastliðinn. Fyrirsögnin og ákveðin atriði í fréttinni gefa hins vegar um sumt villandi mynd af máli mínu þennan dag. Ég er þó ekki að gera því skóna að hinn eljusami blaðamaður hafi vísvitandi farið með rangt mál. Vandinn er sá að endanleg skrifuð ræða liggur ekki fyrir og þá geta flókin mál hæglega misskilist.

Skilja má fréttina þannig að ég hafi verið að kynna afstöðu mína til stefnumótunar varðandi fjármagnshöft og búa föllnu bankanna og að „niðurskrift“ á krónueignum um 75% væri hluti af þeirri stefnu. Þetta passar illa af tveimur orsökum. Í fyrsta lagi eyddi ég töluverðu máli í ræðu minni í að útskýra að orðið „niðurskrift“ væri illa hæft til að lýsa því sem um er að ræða. Í öðru lagi var ég ekki að setja fram slíka stefnumörkun í ræðunni heldur snérist hún um að greina vandamálið og lista upp ýmsa möguleika sem  væru á lausn þess. Ég benti á að í grundvallaratriðum væri um þrjár leiðir að ræða. Ein er sú sem kölluð hefur verið krónuvæðing, önnur væri gjaldþrot og slit og þriðji möguleikinn væri nauðarsamningar með því sem ég kallaði pakkalausn varðandi þann vanda sem sneri að kröfum á innlenda aðila.  Hvað slíka lausn varðaði benti ég á tvo möguleika. Annar er nefndur í grein Morgunblaðsins, sá sem kallaður var krónuhreinsun búanna, en sá seinni var ekki nefndur, sem ég kallaði skilyrði varðandi krónuúthlutun og notkun búanna.  Í þessu sambandi vil ég undirstrika að þótt ýmsir möguleikar hafi verið viðraðir hef ég ekki enn lagt fram ákveðnar tillögur um útfærslu einhverra þessara leiða á þeim vettvangi þar sem um þær verður vélað, þ.e. í stýrihópi sem í eiga sæti tveir ráðherrar og forstjóri FME, auk mín. Það hefur af ýmsum ástæðum ekki verið tímabært og stefnumótun verður á endanum ákveðin af hópnum í heild.

Eins og áður sagði var það hluti af ræðu minni að útskýra að orðið niðurskrift væri ekki gott til að lýsa því sem þarf að gera. Málið snerist miklu frekar um raunhæf verð við sölu krónueigna út úr búunum og raunhæft gengi varðandi umbreytingu þeirra í gjaldeyri. Í þessu sambandi tók ég dæmi um hvaða áhrif það hefði á núverandi mælingu á skuldastöðu þjóðarbúsins ef þessar eignir færðust úr landi með 25 eða 75% afföllum frá núverandi bókfærðum verðum og álandsgengi. Með því væri engin afstaða tekin til þess hver niðurstaðan gæti orðið í því máli og því síður sagði ég eða kvað upp úr með hvað mínar vonir stæðu til, enda ekki vani minn að fjalla um mínar hugrenningar og hugarástand í máli sem þessu.

Ég mun halda ræðu á ársfundi Seðlabanka Íslands næstkomandi fimmtudag. Sú ræða verður skrifuð og birt á vef bankans og mun ég þá koma nánar inn á þessi mál.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK