Róbert Wessman stofnar snjohengjan.is

*Róbert Wessman.
*Róbert Wessman. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ný vefsíða, www.snjohengjan.is, er komin í loftið þar sem þjóðinni gefst kostur á því að skora á stjórnmálamenn að setja lausn „snjóhengjuvandans“ í forgang að loknum kosningum.  Róbert Wessman, forstjóri lyfjafyrirtækisins Alvogen, er í hópi um 40 stofnenda síðunnar.

„Eitt af brýnustu hagsmunamálum Íslendinga er að hefja nýja sókn til bættra lífskjara með fjölgun starfa, auknum kaupmætti  og meiri lífsgæði að leiðarljósi,“ segir í tilkynningu frá Róberti Wessman. 

„Íslenskt atvinnulíf hefur verið læst í fjármagnshöft um nærri fimm ára skeið sem skýrir að stórum hluta þá stöðnun sem ríkt hefur hérlendis á þessum tíma. Haftalæsing Íslands stafar af miklu leyti af aflandskrónum í eigu erlendra aðila, einkum svonefndra vogunarsjóða og bankastofnana, sem hafa ekki komist með þær úr landi. Þessar krónueignir eru oft í daglegu tali kallaðar „snjóhengjan“.“

 Stofnendur vefsíðunnar hvetja alla Íslendinga til að taka þátt í áskorun til stjórnmálamanna um að setja lausn „snjóhengjunnar“ í forgang. „Við viljum hefja nýja sókn til bættra lífskjara og lausn snjóhengjunnar er lykilforsenda í þeim efnum. Við erum í góðri samningsstöðu til að semja við eigendur þeirra 800 milljarða aflandskróna sem leita útgöngu og skorum á stjórnmálamenn að sýna framsýni og þor við lausn málsins,“ segir Róbert Wessman, forstjóri Alvogen.

Það eru 11 núll í 800 milljörðum króna

Í tilkynningu Róberts segir að snjóhengjan nemi um 800-1.000 milljörðum króna. Frjáls gjaldeyrisviðskipti með núverandi snjóhengju til staðar gætu að hans mati leitt til verulegs gengisfalls krónunnar og óðaverðbólgu. 

„Að afnema gjaldeyrishöft undir núverandi kringumstæðum myndi því alltaf kalla á inngrip Seðlabanka Íslands til að sporna við slíkri gengisveikingu.  Seðlabanki Íslands myndi líklega þurfa að auka enn frekar gjaldeyrisvaraforða sinn og selja erlendan gjaldeyri til að sporna við veikingu krónunnar,“ segir í tilkynningunni.

 Gjaldeyrisvaraforði Seðlabanka Íslands er að mestu leyti tekinn að láni og mun slíkt inngrip að öðru óbreyttu leiða til aukinna skulda ríkissjóðs, segir í tilkynningunni

„Hér er um svo stórar fjárhæðir að ræða að með engu móti er hægt að ætla það að landsmenn geti reitt fram þann gjaldeyri sem þarf, til að skipta þessum krónueignum  á núverandi  gengi Seðlabanka Íslands.  Upptaka á erlendum gjaldeyri í stað íslenskrar krónu mun ekki leysa þennan vanda og því er mikilvægt að hagstæðir samningar náist við eigendur þessara aflandskróna.“

Róbert segir að snjóhengjan sé í senn mesta ógn sem steðjar að Íslandi en um leið okkar stærsta tækifæri  til hagsældar á komandi árum.  „Eigendur þessara aflandskróna sjá þær ekki sem varanlega eign hérlendis, heldur vilja skipta þeim yfir í aðra gjaldmiðla og flytja úr landi. Hagsmunir Íslendinga og eigenda aflandskrónanna tvinnast saman í þessu mikilvæga máli, sem ætti að vera hvati og grundvöllur til farsællar lausnar.“

 Hann segir að úrlausn á snjóhengjunni skapi gríðarleg tækifæri fyrir landsmenn til að byggja nýjan grunn fyrir efnahags og fjármálakerfi landsins, samhliða afnámi hafta.  „Við skorum á alla stjórnmálaflokka að vinna að sem bestri lausn fyrir Ísland. Tækifæri til samninga við kröfuhafa kemur ekki aftur.“

 Róbert segir að vegna gjaldeyrishaftanna geti íslenska ríkið þrýst á um hagstæða samninga með því að beita fyrir sig löggjafarvaldinu. Forystumenn þjóðarinnar þurfi í þessari stöðu að „sýna framsýni, djörfung og þor“, með hagsmuni Íslendinga í huga bæði í nútíð og framtíð.  

 Breiður hópur að baki síðunni

Að baki vefsíðunni www.snjohengjan.is standa fjölmargir einstaklingar með ólíkan bakgrunn sem eiga það allir sameiginlegt að vilja stuðla að aukinni umræðu um lausn snjóhengjunnar. Meðal stofnenda eru: Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, Helen Neely, rekstrar- og fjármálastjóri, Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, Guðni Bergsson lögfræðingur, Steinn Jóhannsson skólameistari og María Bragadóttir heilsuhagfræðingur. 

 Vefsíðan er óháð og hefur enga tengingu við stjórnmálaflokka.

Róbert segir að vegna gjaldeyrishaftanna geti íslenska ríkið þrýst á …
Róbert segir að vegna gjaldeyrishaftanna geti íslenska ríkið þrýst á um hagstæða samninga með því að beita fyrir sig löggjafarvaldinu. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK