Hver ferðamaður eyðir minna en áður

Kortavelta ferðamanna jókst mikið milli ára, en í rauninni er …
Kortavelta ferðamanna jókst mikið milli ára, en í rauninni er hver ferðamaður að eyða minni fjármunum en áður. mbl.is/Ómar

Erlendir ferðamenn greiddu 1,2 milljarða með greiðslukortum í verslunum hér á landi í desember sem er 13% aukning frá árinu áður. Þá eyddu þeir 784 milljónum í skipulagðar skoðanaferðir og ýmsa sérsniðna ferðaþjónustu sem er aukning um 68% frá desember árið áður. Þá greiddu erlendir ferðamenn með kortum sínum veitingar á veitingahúsum fyrir 565 milljónir í desember sem er 47% aukning frá árinu áður.

Alls nam greiðslukortavelta erlendra ferðamanna 4,5 milljörðum í desember sem er 32% aukning frá árinu áður. Þessi aukning er vegna aukins fjölda ferðamanna en ekki vegna þessa þess að hver ferðamaður eyði meira en árið áður. Hver erlendur ferðamaður greiddi að jafnaði 107 þúsund krónum með greiðslukorti sínu hér á landi í desember síðastliðnum en 120 þúsund krónum í desember 2012. Þetta kemur fram í tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Segir þar að athyglisvert sé að greina einstaka útgjaldaliði erlendra ferðamanna í desember. Þannig virðast erlendir ferðamenn aka um á bílaleigubílum í mun meira mæli en áður í desember. Aukning í kortaveltu til bílaleiga var 52% á milli ára. Erlend kortavelta í verslunum var mest í fataverslun, 224 milljónir, en mest aukning á milli ára var í dagvöruverslun, 21%, og nam 196 milljónum.

Árið 2013 greiddu erlendir ferðamenn 78,4 milljarða með greiðslukortum og jókst heildarkortaveltan um 24,4% frá árinu áður. Hver ferðamaður greiddi að jafnaði 97.400 með greiðslukorti árið 2012 en á síðasta ári nam þessi upphæð 100.400. Aukning á hvern ferðamann nam því 3% á milli ára, sem er heldur minna en verðlagshækkanir, þannig að raunminnkun var í erlendri kortaveltu á hvern erlendan ferðamann sem hingað kom árið 2013. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK