Aðeins eitt tækifæri til afnáms hafta

Már Guðmundsson seðlabankastjóri
Már Guðmundsson seðlabankastjóri Eggert Jóhannesson

Það ætti að reyna að halda genginu eins lágu og hægt er meðan verið er að komast gegnum efnahagslega erfiðleika. Þetta sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun um störf peningastefnunefndar, en Már sagði viðskiptaafganginn vera orðinn töluvert lágan núna eftir metafgang síðustu ár.

„Eitt skot sem við fáum“

Þingmaðurinn Guðmundur Steingrímsson spurði Má að því hvort betur mætti ganga við afnám hafta og hvort uppi væri áætlun í þeim efnum. Már sagði að það væri sín skoðun að ekki væri tímabært að birta endurskoðaða áætlun um losun hafta eða tímasetta áætlun fyrr en búið væri að fá niðurstöðu í það hvernig bú föllnu bankanna verði gerð upp. Sagði hann takmörk fyrir því hversu mikið ætti að gefa upp í þeim efnum. Hann sagði aftur á móti heilmikla greiningarvinnu vera í gangi varðandi alla möguleika sem komi til greina varðandi lok þessa máls.

Þetta er mjög stórt og flókið mál og öfugt við peningastefnuna,“ sagði Már, en hann benti á að aðeins eitt tækifæri gæfist varðandi uppgjörið. „Þarna er eitt skot sem við fáum og það verður að heppnast“,  sagði hann og bætti við að ef gerð væru mistök með peningastefnuna væri hægt að leiðrétta það á næsta fundi.

Ógeðfellt í markaðshagkerfi

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Má hvort fjárfestingaleiðin ætti rétt á sér og sagði hana vera ógeðfellda í markaðshagkerfi þar sem haldið væri úti tvöföldu gengi. Már tók undir með honum og sagði ógeðfelt í markaðshagkerfi að vera með tvöfalt gengi, en að það væri af illu einu sem höftin væru uppi. Sagði hann að þetta væri ekki einsdæmi og benti til þess að Bretar hefðu verið með aflandspund og tvöfalt gengi í um tvo áratugi eftir stríð. „Vonum að Ísland verði ekki með höftin svo lengi,“ bætti hann þó við.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi hátt vaxtastig bankans sem hann sagði vera of hátt og spurði Má hvort þetta hefði ekki mikil áhrif á fjárfestingu, sem hann sagði vera of lága. Már svaraði því til að fjárfesting væri lág um allan heim og það hefði ekkert með vaxtastig að gera heldur væru efnahagsreikningar í „maski“ og fjárfestingaviljinn ekki búinn að taka við sér eftir svo mikið högg sem átti sér stað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK