Hæsta fermetraverðið í miðborginni

mbl.is/Sigurður Bogi

Árið 2013 var hæsta fermetraverðið á höfuðborgarsvæðinu 336 þúsund krónur í miðborg Reykjavíkur og það lægsta 193 þúsund krónur á Vöngum í Hafnarfirði. 75% munur er þarna á milli og hefur aldrei verið meiri, að því er segir í umfjöllun hagfræðideildar Landsbankans.

Dýrustu hverfin, á eftir miðborginni í Reykjavík, eru miðlæg svæði í Reykjavík, Garðabær og Seltjarnarnes. Garðabæ er skipt upp í þrjá hluta og eru þau öll meðal sex dýrustu hverfanna. Miðlægu hverfin í Reykjavík, eins og Melar, Hagar, Lönd, Grandar og Hlíðar koma einnig sterk inn.

Hagfræðideildin segir að á þensluárunum fyrir hrun hafi verðmunur milli dýrustu og ódýrustu hverfa aukist mikið. Sá munur hafi síðan minnkað aftur við hrunið og á árunum þar á eftir. Á síðustu tveimur árum hafi þessi munur svo aukist aftur en hann er nú meiri en nokkru sinni fyrr.

Sé litið á þróun hæstu og lægstu verða yfir lengri tíma má sjá að munurinn hefur aukist nær stöðugt. Á árinu 2002 var dýrasta hverfi 30% dýrara en ódýrasta hverfið, en munurinn er nú næstum því 75%.

„Mikil umræða hefur verið á síðustu misserum um mikla spurn eftir íbúðum á miðlægum svæðum sem hafi ýtt verðum þar upp á við. Þessar tölur staðfesta þá kenningu að einhverju leyti, en þó ekki öllu þar sem hækkun á miðsvæðum í Reykjavík, til dæmis miðborginni, var ekki meiri en víða annars staðar,“ segir hagfræðideildin.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK