Spá 2,7% hagvexti í ár

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Hagstofa Íslands spáir því í nýrri þjóðhagsspá að hagvöxtur verði 2,7% í ár og 3% á næsta ári.

Aukning einkaneyslu verður 3,5% 2014 og fjárfesting eykst um 9,2%. Árið 2015 er reiknað með að að einkaneysla aukist um 3,3% og nærri 3% á ári 2016-2018.

Mjög margir einstaklingar í mjög alvarlegum vanskilum

„Þó horfur séu góðar á að einkaneysla vaxi á næstunni eru enn ýmis neikvæð teikn á
lofti. Mjög margir einstaklingar eru enn í alvarlegum vanskilum. Meðallaun eftir skatta á árinu 2012 voru með svipaðan kaupmátt og var árið 2004, en það ár voru skuldir heimilanna um 78% af landsframleiðslu og 155% af ráðstöfunartekjum en á árinu 2012 voru þessi hlutföll 106% annarsvegar og 224% hinsvegar.

Lækkun verðtryggðra húsnæðislána mun án efa draga úr vanskilum og bæta skuldastöðuna nokkuð en þó er ljóst að hún mun ekki gagnast öllum til að komast á réttan kjöl. Viðvarandi skuldavandi heimila, sem minnkar eitthvað á árinu, verður því áfram hemill á neyslugetu margra heimila á næstu misserum,“ segir í spánni.

Fjárfesting eykst um 18,2% árið 2015 og verður vaxandi ef frá er talið árið 2017. Samneysla eykst um 0,7% á þessu ári og 0,8% 2015 en vex í tæp 2% á ári eftir það.

Áætlun ríkisstjórnarinnar um lækkun verðtryggðra íbúðalána ásamt aukningu ráðstöfunartekna, sem m.a. má rekja til styrkingar vinnumarkaðar, styðja við einkaneyslu á spátímanum.

Verðbólga 2,6% í ár og 3,4% árið 2015

Spáð er 2,6% verðbólgu árið 2014, 3,4% árið 2015 og 3,1% árið 2016, en undir þremur prósentum eftir það. Kjarasamningum er að mestu lokið á almennum vinnumarkaði en lausir kjarasamningar opinberra starfsmenn viðhalda nokkurri óvissu um launa- og verðlagsþróun.

Atvinnuvega- og íbúðafjárfesting eykst talsvert til 2016, samkvæmt spánni, en stóriðjufjárfesting dregst saman árið 2017 sem dregur vöxt atvinnuvegafjárfestingar niður árin 2017 og 2018.

„Sem fyrr ríkir umtalsverð óvissa um stóriðjufjárfestingar á spátímanum. Fjárfestingum Alcan í Straumsvík er nú að mestu lokið og einnig framkvæmdir Landsvirkjunar við Búðarhálsvirkjun. Í þjóðhagsspá er áætlað að framkvæmdir hefjist við kísilver á Bakka á vegum fyrirtækisins PCC. Í febrúar úrskurðaði Eftirlitsstofnun EFTA að ríkisaðstoð og fjármögnunarsamningur ríkisins við PCC stæðust kröfur EES samningsins.

Í mars skrifaði PCC síðan undir raforkusölusamning við Landsvirkjun. Líkur hafa því aukist á að verkefnið verði að veruleika. Áætlað er að framkvæmdir á Bakka hefjist á þessu ári en nái hámarki árið 2016. Einnig er reiknað með fjárfestingum í gufuaflsvirkjunum á Norðausturlandi í tengslum við verkefnið.
Meiri óvissa ríkir um aðra stóriðjukosti en áhugi hefur aukist á orkufrekum stóriðjufjárfestingum upp á síðkastið. Gert er ráð fyrir orkutengdum stóriðjufjárfestingum sem yrðu á stærð við fyrsta áfanga álvers í Helguvík eða verkefni að svipuðu umfangi. Er áætlað að framkvæmdir hefjist árið 2015 og komist á fullt skrið árið 2016. Hvað varðar aðrar fjárfestingar er útlit fyrir að nokkuð verði fjárfest ískipum og flugvélum árin 2014 og 2015 og verði fjárfestingar svipaðar að umfangi og árið 2013.

Útflutningur vex allan spátímann en innflutningur mun þó aukast meira en útflutningur vegna fjárfestingar og einkaneyslu. Vöru- og þjónustuafgangur lækkar því á næstu árum en gert er ráð fyrir að hann lækki úr 7,4% af landsframleiðslu árið 2013 í 3,7% árið 2018.

„Kjarasamningum vegna ársins 2014 er að mestu lokið á almennum vinnumarkaði en þar var samið um hóflegar kjarabætur með tilliti til verðstöðugleika. Ósamið er við stærstan hluta opinberra starfsmanna en kjaradeila sumra hópa opinberra starfsmanna er harðari nú en undanfarin misseri. Einhver óvissa er því enn um launaþróun á árinu 2014 og um næstu áramót hefst ný samningalota á almennum vinnumarkaði. Aðgerðir stjórnvalda um lækkun verðtryggðra skulda munu bæta efnahagsreikning heimila þegar á þessu ári án þess þó að handbært fé þeirra aukist. Engu að síður er gert ráð fyrir jákvæðum áhrifum á einkaneyslu vegna bættrar skuldastöðu,“ segir í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK