Um 850 milljónir í mat og drykk

mbl.is/Styrmir Kári

Rannsóknasetur verslunarinnar áætlar að landsmenn verji um 603 milljónum króna til kaupa á mat- og dagvöru fyrir páskana í ár. Líklegt er að páskaegg og önnur sætindi vegi þar nokkuð þungt, að því er segir í tilkynningu frá setrinu.

Þá er áætlað að landsmenn kaupi áfengi fyrir páskana fyrir 243 milljónir króna, bæði páskabjór og aðrar veigar. Samtals má því ætla að heildarfjárhæð í mat og drykk fyrir páskana nemi um 846 milljónum króna.

Líkt og undanfarna mánuði eykst velta jafnt og þétt í snjallsímum, eða um 28,5%, stærri raftækjum, um 14,5%, og í húsgögnum, um 12,1%, á milli ára. Fataverslun á enn í vök að verjast en hún dróst saman um 1,2%. Sala á minni raftækjum minnkaði um 23,3% og þá dróst salan á tölvum um 2,9%.

„Ekki er ólíklegt að samband sé á milli þess að sala á snjallsímum eykst á meðan samdráttur er í sölu á tölvum. Tölvusamskipti fara í auknum mæli í gegnum snjallsíma og því er ef til vill ekki eins rík endurnýjunarþörf á tölvum,“ segir í tilkynningunni.

Þá jókst greiðslukortavelta heimilanna í mars um aðeins 0,7% borið saman við mars í fyrra og nam 55,2 milljörðum króna samkvæmt tölum Seðlabankans. Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna hér á landi var 6,7 miljarðar króna í mars sem er 29,2% hærri upphæð en í mars í fyrra.

„Sú upphæð sem erlendir ferðamenn greiddu með greiðslukortum sínum hér á landi í mars svarar því til 12,2% af því sem íslensk heimili greiddu með sínum kortum, “ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK