190 milljóna fjárfesting í íslenskum hjólagöfflum

Sigurvegarar úr fjallahjólakeppni Hjólreiðafélags Reykjavíkur. Helgi Berg Friðþjófsson (annað sæti), …
Sigurvegarar úr fjallahjólakeppni Hjólreiðafélags Reykjavíkur. Helgi Berg Friðþjófsson (annað sæti), Ingvar Ómarsson (fyrsta sæti) og Óskar Ómarsson (þriðja sæti). Mynd/Lauf forks

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Lauf forks, sem hefur verið með nýjan hjólagaffal í þróun undanfarin ár, vinnur þessa dagana að því að markaðssetja gaffalinn á heimsvísu og hafa í því skyni lokið við hlutafjáraukningu upp á 190 milljónir. H.F. Verðbréf höfðu umsjón með aukningunni. Ætlunin er að nýta fjármagnið til að standa straum af kostnaði við aukna markaðssókn og áframhaldandi vöruþróun, en fyrirtækið hefur unnið að því undanfarið að kynna sig og vörur sínar á heimsvísu.

Benedikt Skúlason, einn stofnenda Lauf forks, segir að unnið hafi verið jöfnum höndum að því að selja gafflana „beint frá býli“ í gegnum vef fyrirtækisins sem og í gegnum erlenda dreifingaraðila og verslanir. Jafnframt hefur stórt amerískt hjólamerki ákveðið að bjóða Lauf gaffalinn undir hjólum frá sér fyrir árið 2016.

Íslenskir og erlendir hjólreiðakappar hafa undanfarið verið að prófa vöruna og hefur hún reynst vel. Nýlega var haldin fyrsta fjallahjólakeppni sumarsins af Hjólreiðafélagi Reykjavíkur við Rauðavatn. Þar vakti athygli að fyrstu þrjú sætin voru skipuð hjólreiðamönnum sem töldu vænlegast til árangurs að hjóla brautina á Lauf gaffli. Sætir það nokkrum tíðindum þar sem útbúnaður fremstu reiðhjólamanna skiptir verulegu máli bæði við æfingar og keppni, og verð keppnishjóla í þessarri grein er t.a.m. oft í kringum milljón krónur.

Fyrirtækið hefur á stuttum tíma komið hugmynd sinni af teikniborðinu í framleiðslu og alþjóðlega sölu, og stefnir á að selja um eitt þúsund Lauf gaffla á þessu ári. Þá hefur starfsmönnum einnig fjölgað og nú starfa fimm starfsmenn hjá félaginu við vöruþróun, hönnun, markaðssetningu og sölu.

Starfsmenn Lauf forks, f.v. Benedikt Skúlason, Rúnar Ómarssson, Bergur Benediktsson …
Starfsmenn Lauf forks, f.v. Benedikt Skúlason, Rúnar Ómarssson, Bergur Benediktsson og Guðberg Björnsson. Mynd/Lauf forks
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK