Hrista hópinn saman í snekkju

„Um borð í snekkju er meiri hreyfing á fólki, meiri …
„Um borð í snekkju er meiri hreyfing á fólki, meiri blöndun og gaman að rölta um skipið, staldra við hjá hinum og þessum kolleganum með glas af bjór eða freyðivíni, og taka spjall á meðan báturinn líður áfram,“ segir Bjarki. Með honum er Einar Steinþórsson skipstjóri Hörpunnar. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Það er eitthvað við snekkjur. Þær hafa á sér einhvern fágaðan blæ, mætti jafnvel segja að þær séu ævintýralegar. Enda er ríka og fræga fólkið duglegt að skemmta sér á snekkjum og t.d. þekkt að þegar kvikmyndahátíðin er haldin í Cannes er enginn maður með mönnum nema hann haldi veglega veislu um borð í snekkju sem lagt er í höfninni.

Bjarki Guðmundsson segir að Íslendingum standi nú til boða að eiga smá Cannes-stund í Reykjavíkurhöfn og upplagt fyrir vinnustaði að leigja snekkjuna Hörpu til að efla hópinn.

Bjarki stýrir síðunni Salir.is en þar er hægt að finna hentug salarkynni fyrir veislur og fundi og eins finna skemmtikrafta og veislustjóra. Hægt er að bóka snekkjuna í gegnum salir.is.

Notaleg stofa

„Þetta er í fyrsta skipti sem boðið er upp á þennan valkost hér á landi. Hefur snekkjan allt til alls, getur rúmað allt að 36 gesti og getur farið mjög vel um 20-25 manns. Gestir um borð geta tyllt sér í sófana í stofu snekkjunnar eða farið upp á efra dekk og setið þar í makindum í leðursófum. Í stefninu og skutinum er líka hægt að koma sér vel fyrir, sitja að spjalli eða velja rétti af veisluborði.“

Að mati Bjarka getur stutt sigling á snekkju út á sundin verið hápunkturinn á skemmtilegum degi fyrir starfsmenn enda góð leið til að hrista hópinn saman. Snekkjan liggur við bryggju í gömlu höfninni í miðbæ Reykjavíkur, steinsnar frá veitingastöðum miðborgarinnar og viðburðunum í Hörpu. Mætti t.d. enda dag af fundum og stefnumótun með léttu kokteilboði um borð, nú eða halda starfsmönnum veislu í snekkjunni á meðan siglt er um flóann og svo lagst að höfn við inngang Hörpunnar þar sem mætti halda fjörinu áfram á spennandi tónleikum eða heimsókn á veitingastað.

Segir Bjarki að bátsferð skapi mjög sterka umgjörð utan um fund eða fjör og allt önnur upplifun en ef verið væri uppi á landi. „Byrjar upplifunin strax á bryggjunni þegar fólk er komið í hafnarumhverfið, með allt sitt líf, sjávarilm og hljóð.“

Innilegt umhverfi

Mest segir hann samt muna um að um borð í snekkju þjappist fólk vel saman og þess vegna mjög góður valkostur ef markmiðið er að bæta starfsandann og skapa óformlegt andrúmsloft meðal starfsfólks. „Þegar setið er við fundarborð eða veisluborð á veitingastað hendir það að fólk ræðir oft bara við sína nálægustu sessunauta. Um borð í snekkju er meiri hreyfing á fólki, meiri blöndun og gaman að rölta um skipið, staldra við hjá hinum og þessum kolleganum með glas af bjór eða freyðivíni, og taka spjall á meðan báturinn líður áfram eftir haffletinum.“

Það má jafnvel gera bátsferðina að meiru en bara hittingi með pinnamat og kampavíni. „Ef þess er óskað er t.d. sjálfsagt að hafa nokkrar veiðistangir uppi á dekki og gaman að renna fyrir fisk með vinnufélögunum. Hægt er að heimsækja eyjarnar á flóanum, kannski koma til veislu í Viðey með stæl eða fara í útsýnisferð um sundin og sjá hvort ekki kemur hvalur syndandi til að heilsa upp á farþegana.“

Betri einbeiting með fundum utan vinnustaðar

Vefurinn Salir.is var stofnaður fyrir um áratug og er þar í dag að finna mjög aðgengilegt og stórt safn fundar- og veislusala. Segir Bjarki vefinn gott tæki fyrir stjórnendur sem standa frammi fyrir því að þurfa að finna veislu- eða fundarsal, en vefurinn er líka mikið notaður af aðilum í ferðaþjónustu og öllum þeim sem standa í því að skipuleggja fundi, ráðstefnur, brúðkaup, árshátíðir og önnur mannamót.

Segir Bjarki að það færist í vöxt að fyrirtæki haldi stóra og smáa starfsmannafundi utan vinnustaðarins, jafnvel þó prýðisgóð fundaraðstaða sé þegar til staðar í fyrirtækinu eða stofnuninni. „Ástæðan er sú að með því að halda fund utan vinnustaðarins er verið að færa starfsmennina frá þeim truflunum sem oft eru til staðar í vinnunni. Ef haldið er í snotran fundarsal úti í bæ, eða jafnvel fyrir utan borgina, þá verður fólk að skilja eftir borðtölvuna og borðsímann, og ekki hægt að stinga af svo glatt til að halda á annan fund. Þessir fundir eru því mjög góðir fyrir þær sakir að þeir bæta einbeitingu fundargesta og auka skilvirkni fundarins um leið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK